Bandaríkin gerðu loftárásir á hryðjuverkamenn á vegum Íslamska ríkisins í norðvesturhluta Nígeríu á jóladag. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti árásirnar í færslu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social. „Ég hef áður varað þessa Hryðjuverkamenn að ef þeir hættu ekki að slátra Kristnu fólki myndu þeir gjalda þess dýrum dómi og það gerðu þeir í nótt,“ skrifaði Trump. „Guð Blessi Herinn okkar. GLEÐILEG JÓL til allra, líka dauðu Hryðjuverkamannanna, sem verða mun fleiri ef slátrun þeirra á Kristnu fólki heldur áfram [hástöfun hans].“ Utanríkisráðuneyti Nígeríu staðfesti að árásirnar hefðu verið gerðar og sagði þær hafa verið nákvæmnisárásir á skotmörk hryðjuverkamanna. Afríkuherstjórn bandaríska varnarmálaráðuneytisins sagði „nokkra ISIS-hryðjuverkamenn“ hafa verið drepna í Sokoto-fylki. Tekið var fram að árásirnar hefðu verið gerðar að beiðni nígerískra stjórnvalda. Þetta er í fyrsta sinn í forsetatíð Trumps sem Bandaríkin gera árásir í Nígeríu. Trump úthúðaði nígerískum stjórnvöldum í október og nóvember vegna morða á kristnum Nígeríumönnum og líkti ástandinu við þjóðarmorð. Stjórnvöld í Nígeríu hafna því að hryðjuverkaógnin í landinu beinist sérstaklega gegn kristnu fólki og benda á að múslimar og fólk af öðrum trúarhópum verði líka reglulega fyrir árásum í landinu. Nú síðast á miðvikudag fórust að minnsta kosti sjö manns þegar sprengja sprakk í mosku í borginni Maiduguri.