Rússneskur stjórnarandstæðingur dæmdur í sex ára fangelsi

Sergej Údaltsov, leiðtogi rússnesku Vinstrifylkingarinnar, var á fimmtudag dæmdur í sex ára fangelsi fyrir „réttlætingar á hryðjuverkum“. Údaltsov er leiðtogi rússnesku Vinstrifylkingarinnar og á í tengslum við Kommúnistaflokk Rússlands. Hann er ötull gagnrýnandi Vladímírs Pútín Rússlandsforseta en styður engu að síður innrásina í Úkraínu. Hann hefur talað um innlimun Rússlands á hlutum Úkraínu sem nauðsynlegt skref í átt að endurreisn Sovétríkjanna. Údaltsov var handtekinn og ákærður í janúar í fyrra. Ákæran gegn Údaltsov snýst um grein sem hann birti á netinu til stuðnings annars hóps marxískra aðgerðasinna í Úfa sem höfðu verið sakaðir um að mynda hryðjuverkasamtök. Aðgerðasinnarnir voru sakfelldir fyrr í desember og dæmdir í 16 til 22 ára fangelsi. Údaltsov hafnaði dómnum á fimmtudag og sagði hann skammarlegan. Hann tilkynnti jafnframt að hann ætlaði í hungurverkfall vegna dómsins. Sergej Údaltsov var einn af leiðtogum fjöldamótmæla gegn Pútín árin 2011-12. Þetta er ekki fyrsti fangelsisdómur hans. Hann var dæmdur í 40 klukkustunda samfélagsþjónustu í desember 2023 fyrir að brjóta gegn reglum um skipulagningu fjöldafunda og árið 2014 var hann dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir hlutverk sitt í mótmælunum gegn Pútín árið 2012. Honum var sleppt úr fangelsi árið 2017.