Mexíkóski framherjinn Raul Jimenez skoraði nýverið úr víti í 1-0 sigri Fulham gegn Nottingham Forest. Þar með er hann orðin besta vítaskytta í sögu ensku úrvalsdeildar karla í fótbolta. Jimenez og Fílabeinsstrendingurinn Yaya Toure hafa nú báðir skorað úr ellefu spyrnum af ellefu. Þeir eru þeir einu með 100% nýtingu af þeim sem hafa tekið fleiri en tíu víti. En ef við lítum niður á listann minnir Íslendingur á sig. Á Heiðar Helguson að eiga sitt pláss í þessari umræðu? Eða er Eiður Smári Guðjohnsen mögulega betri skytta? Hvað leynist þarna Af núverandi stjörnum eru Cole Palmer og Bukayo Saka með afar góða nýtingu, en þeir hafa aðeins klúðrað einu sinni. Matt Le Tissier nagar sig eflaust enn í handarbökin yfir klúðri sínu gegn Nottingham Forest. Það var þriðja víti hans í deildinni en hann skoraði svo úr 23 spyrnum í röð. Svo má benda á að enginn markvörður varði víti frá Thierry Henry. Bæði klúður hans voru skot í stöng gegn finnsku markvörðunum Jussi Jääskeläinen og Antti Niemi. Það myndu fáir í dag notast við spyrnutækni West Ham goðsagnarinnar Julian Dicks. Hann lúðraði boltanum með hreinni rist á markið. Það reyndist honum ágætlega en hann klúðraði aðeins einu sinni. Hverjir koma næst? Næstir eru bæði hetjur nútíðar og fortíðar. Fyrrum Brentford hetjurnar Ivan Toney og Bryan Mbeumo skoruðu úr fyrstu tíu vítum sínum en klúðruðu því ellefta. Þá ætti Mikel Arteta að geta kennt lærisveinum sínum í Arsenal eitt og annað um víti, en hann skoraði úr 17 af 19. Ivan Toney : 91,7% nýting (11/12) Aleksander Isak : 91,7% nýting (11/12) Bryan Mbeumo : 90,9% nýting (10/11) Leighton Baines : 90,9% nýting (20/22) Danny Ings : 90,9% nýting (10/11) Gary Speed : 90,9% nýting (10/11) Frank Leboeuf : 90,9% nýting (10/11) James Milner : 90,0% nýting (18/20) Peter Beardsley : 90,0% nýting (18/20) Alexis Mac Allister : 90,0% nýting (9/10) João Pedro : 90,0% nýting (9/10) Mikel Arteta : 89,5% nýting (17/19) Eden Hazard : 89,5% nýting (17/19) Harry Kane : 89,2% nýting (33/37) Listinn inniheldur aðeins þá sem hafa tekið 10 eða fleiri vítaspyrnur. Hvar er Heiðar? Heiðar Helguson er með bestu nýtingu af Íslendingum í deildinni. Hann skoraði úr sex af sjö vítum sínum í ensku úrvalsdeildinni, sem er nýting upp á 85,7%. Heiðar klúðraði einungis einu víti á ferli sínum. Ómanski kötturinn Ali-Al Habsi sá til þess er hann varði víti Heiðars í 3-1 sigri QPR gegn Wigan árið 2012. Heiðar skoraði úr öðru víti fyrr í leiknum. Hann skoraði úr 18 vítum á ferlinum og þetta er eina staðfesta vítaklúðrið hans. Heiðar skoraði einu sinni úr víti fyrir Ísland, gegn Andorra árið 2010. Heiðar í ensku úrvalsdeildinni 96 leikir - 28 mörk - 6 stoðsendingar. Heiðar lék með Watford hálft tímabil 2000/2001, Fulham 2005/2006 og 2006/2007, QPR tímabilið 2011/12 auk nokkurra leikja með Bolton tímabilið 2007/2008. Hvað með Gylfa? Gylfi Sigurðsson á flest víti allra Íslendinga í ensku deildinni. Hann skoraði úr 12 af 16 vítum sínum í deildinni, sem er 75% nýting. Tímabilið 17/18 reyndist honum erfitt af punktinum en hann klúðraði úr þremur vítum fyrir Everton það ár. Gylfi skoraði úr 28 af 39 vítum á ferlinum. Hefði Eiður átt að taka fleiri? Eiður Smári Guðjohnsen tók ekki alltaf vítin í sínum félagsliðum en var þó afar öruggur af punktinum. Hann skoraði úr báðum þeim vítum sem hann tók í ensku deildinni. Hann tók eitt gegn Aston Villa árið 2002 en fékk annað er hann skoraði þrennu gegn Blackburn árið 2004. Eiður fékk þar tækifæri til að fullkomna þrennu sína, sem hann gerði. Auk þess skoraði Eiður úr öllum þeim 14 vítum sem hann tók á ferlinum. Þar af voru tvö fyrir Ísland. Kannski hefðu þau átt að vera fleiri? Flest mörk í sögu deildarinn af punktinum Hér má sjá þá sem hafa skorað flest mörk Af þeim sem hafa tekið afar margar spyrnur er Harry Kane langbesta skyttan. Steven Gerrard rekur lestina þegar kemur að nýtingu. Alan Shearer – 56 mörk úr 67 spyrnum. 83,6% nýting Frank Lampard – 43 mörk úr 50 spyrnum. 86,0% nýting Mohamed Salah – 35 mörk úr 41 spyrnu. 85,3% nýting Harry Kane – 33 mörk úr 37 spyrnum. 89,2% nýting Steven Gerrard – 32 mörk úr 39 spyrnum. 82,1% nýting Shearer (11), Wayne Rooney (11) og Teddy Sheringham (10) eru þeir einu sem hafa klúðrað 10 eða fleiri vítum. Hverjir eru þeir verstu? Kólumbíski framherjinn Juan Pabló Ángel á þann vafasama heiður að vera versta vítaskytta í sögu deildarinnar. Hann skoraði úr 5 af 10 spyrnum sínum og er því með 50% nýtingu. Paul Pogba, Wayne Rooney og Romelu Lukaku komast einnig á listann. Aleksandar Mitrovic átti versta tímabil sögunnar er hann klúðraði fjórum af átta vítum sínum með Fulham tímabilið 2022/23. Maðurinn sem „mátti“ ekki taka víti Ef að við skoðum markahæstu leikmenn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sker sig eitt nafn úr. Það er Andy Cole. Cole er 4. markahæsti leikmaður sögunnar með 184 mörk en aðeins eitt þeirra er úr vítaspyrnu. Hann tók raunar bara tvær vítaspyrnur á ferlinum. Cole klúðraði spyrnu með Newcastle gegn Coventry í 0-0 jafntefli tímabilið 1994/1995. Síðan tók hann enga spyrnu þar til hann skoraði í 1-2 sigri Fulham gegn Birmingham tímabilið 2004/2005. Hann er því með 50% nýtingu. Ef við tökum í burtu víti helst Alan Shearer þó enn efstur á lista þeirra markahæstu, en Cole fer úr 4. sæti í 2. sæti. Markahæstir ef við tökum vítaspyrnur úr myndinni Alan Shearer – 204 mörk (260 með vítum) Andy Cole – 186 mörk (187 með vítum) Wayne Rooney – 185 mörk (208 með vítum) Harry Kane – 180 mörk (213 með vítum) Sergio Agüero – 157 mörk (184 með vítum) Þeir bestu í sögunni Ef við lítum á þá bestu í sögunni koma nöfn fram sem fæstir fótboltaáhugamenn þekkja. Heimildir eru afar misvísandi en sátt virðist hafa myndast um að Albaninn Lédio Pano sé einn sá allra besti í sögunni. Því er haldið fram að Pano hafi aldrei klúðrað á ferli sínum er hann skoraði yfir 50 vítaspyrnur fyrir Partizani Tirana í heimalandi og með nokkrum félögum í Grikklandi. Hann lék níu landsleiki og var engin goðsögn í Albaníu en rígheldur þó í þetta vítamet sitt. Næstir á listanum: Ovidiu Herea - 39 víti og fullkomin nýting. Rúmenía. Ivan Krstanovic - Yfir 30 víti og fullkomin nýting. Króatía. Vladislav Stoyanov - skoraði úr 24 af 25 vítum. Búlgari. Hvað með Jónas? Þá verðum við að nefna þátt Völsungsins Jónasar Hallgrímssonar. Jónas er faðir Hallgríms Jónassonar þjálfara KA. Erfitt er að finna heimildir en Þingeyingar segja hann hafa skorað úr öllum 27 vítaspyrnum sem hann tók á ferlinum. Þingeyingar eru ekki þekktir fyrir að ljúga, hvað þá að ýkja. „Jónas Hallgrímsson, vítaskyttan unga, sté fram á þessu augnabliki og tryggði liði sínu efsta sætið í deildinni með öruggu marki. Að sögn Völsunga er þetta 22. vítaspyrnan í röð sem Jónas hefur skorað úr og hefur hann, að þeirra sögn, aldrei klúðrað slíkri spyrnu. Góður árangur það!“ - Morgunblaðið 19. september 1986 þegar Völsungur tryggði sér sæti í efstu deild. Eftir þetta bætti Jónas við fimm vítum og enginn hefur nokkru sinni séð hann klúðra víti. Hugsar ekki hlýtt til Habsi Mögulega væri Eiður Smári Guðjohnsen besta vítaskytta sögunnar ef hann hefði fengið fleiri tækifæri til, en hann verður að láta sína 100% nýtingu í 14 vítum duga. Þá hugsar Heiðar Helguson eflaust ekki hlýtt til Ali Al-Habsi. Ef leikirnir væru fleiri í deild þeirra bestu á Englandi væri hann eflaust ofar á lista. Vinkillinn er greinaflokkur þar sem leitast er eftir að segja áhugaverðar íþróttasögur frá hinum ýmsu sjónarhornum.