Kuldaskil eru á leið austur yfir landið með rigningu eða slyddu, og snjókomu til fjalla. Skilin fara hratt yfir og það má búast við vestan- og suðvestanátt á landinu í dag, víða tíu til átján metrar á sekúndu. Þessu fylgja lítils háttar skúrir eða él en það léttir til austanlands. Hiti að sex stigum. Eftir hádegi eru líkur á hvössum vindstrengjum við fjöll á Norðuraustur- og Austurlandi en síðdegis dregur úr vindi, birtir til víðast hvar og kólnar. Varasamt getur verið fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Á morgun gengur í suðvestan kalda eða strekking en það verður hægari vindur sunnantil. Það þykknar upp vestanlands og verður dálítil væta þar eftir hádegi. Hiti eitt til sjö stig. Léttskýjað og svalara um landið austanvert. Á sunnudag er útlit fyrir hæglætisveður með lítils háttar vætu um landið norðan- og vestanvert.