„Ég ætla ekki að brenna allar brýr heima hjá mér til að láta þetta ganga upp“

„Ég er pínu óþolinmóð. Ég held reyndar að ég hafi ekki áttað mig á því fyrr en ég kynntist manninum mínum sem er mjög þolinmóður,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í hátíðarviðtali við Sigurð Þorra Gunnarsson í þættinum Jóladagsmorgun á Rás 2. Í daglegu lífi hafi Kristrún ekki mikla þolinmæði fyrir morgunkornspökkum sem rifna, þegar hana vanti snúrur eða lendi í vandræðum með lykilorð. „Auðvitað endurspeglast þetta eflaust í starfi líka, maður vill bara að hlutirnir gerist. Ég er samt vandvirk, ég vil fá að taka það fram fyrir hönd ríkisstjórnar þjóðar að ég er ekki óreiðukennd.“ Þessi óþolinmæði hefur ef til vill fleygt Kristrúnu áfram í starfi enda er hún ekki nema 37 ára og þegar búin að sitja rúmt ár á forsætisráðherrastóli. „Maður vill ekki tala allt of vel um sjálfan sig en ég átta mig alveg á því að þetta er sérstök staða að vera í.“ Hún segist þó vön því að vera yngsta manneskjan í herberginu. „Þetta er líklega einhvers konar óþolinmæði og auðvitað hefur maður kannski drifið þetta að einhverju leyti áfram sjálfur en mikið af þessu hefur bara verið vegna þess að maður hefur verið á stöðum, fengið tækifæri og stokkið á þau.“ Þarf að treysta sjálfri sér og vita að það er hægt að breyta til Kristrún segist treysta á innsæið og telur bestu ákvarðanir sem hún hafi tekið vera þar sem hún sagði já án þess að hugsa of mikið um það. Hún hafi til að mynda klárað eitt og hálft ár í doktorsnámi í hagfræði við Boston-háskóla þegar hún ákvað að hætta því. „Ég hefði alveg getað þraukað í fjögur ár í viðbót og endað sem eitthvað allt annað en stundum verður maður bara að vera með þessa magatilfinningu og kýla á hlutina. Maður getur alveg gert það án þess að vera óreiðukenndur eða óábyrgur.“ „Maður þarf líka bara að treysta sjálfum sér og vita að það er alveg hægt að breyta til.“ Lá alltaf á að koma hlutunum frá sér Kristrún er yngst þriggja systkina og alin upp í Fossvoginum í Reykjavík. „Ég átti alveg ótrúlega gott uppeldi. Ég á einstaka fjölskyldu og allt sem ég er, er auðvitað bara fólkið í kringum mig.“ Hún hafi ekki alist upp á pólitísku heimili en var snemma sem barn farin að hafa mikla tjáningarþörf. „Ég hafði sterka kennd til að segja frá og hvernig hlutirnir ættu að vera. Þetta hefur alltaf verið sterkt í mér. Mínar sterkustu minningar eru faðir minn að segja mér að grípa ekki fram í fyrir fólki því mér lá svo á.“ Þegar hún lítur til baka yfir sinn pólitíska feril áttar hún sig á því að hún hafi þroskast mikið í starfi, hitastigið hafi minnkað og orðafjöldinn í hverjum andardrætti fækkað. „Mér lá alltaf svolítið á að koma hlutum frá mér.“ Þegar hún og maðurinn hennar voru að kynnast kláraði hún alltaf setningarnar fyrir hann því henni fannst hann ekki koma þeim nógu hratt frá sér. Þessu er hún hætt í dag. Gaman þegar smám saman flettist ofan af hugmynd fólks Kristrún lagði stund á píanónám í fimmtán ár og segist hafa fengið útrás sem unglingur við það að spila og semja sín eigin lög. „Það hjálpaði mér ótrúlega mikið. Þetta voru voðalega væmin popplög,“ viðurkennir hún og hlær. Fólk hafi oft fyrirframgefnar hugmyndir um persónu Kristrúnar, sér í lagi vegna þess hve hratt hún fór inn á þing. „Fólk sér oft bara eina hlið á þér. Það sér þig eins og þú ert í dag en maður er auðvitað með alls konar reynslu og hefur gengið í gegnum ýmislegt sem hefur mótað mann.“ „Það er svolítið gaman þegar það smám saman flettist ofan af því og fólk er oft hissa á því að það sé eitthvað meira þarna.“ Með reynslunni hefur Kristrún öðlast meiri skilning á hve flókið fólk getur verið. Fólk hafi gjarnan ákveðnar hugmyndir um fólk sem er í pólitík en þar séu flestir marglaga. „Ég man eftir því þegar ég fór fyrst í framboð fyrir Samfylkinguna og kom úr fjármálageiranum. Fólk ætlaði ekki að trúa þessu.“ „Fólk bara skildi það ekki að ég gæti verið með mína menntun, hafandi unnið í einkageiranum og einhverjum stórum fjárfestingarbanka erlendis en svo var ég jafnaðarmaður.“ Þá spurði hún hvort það þyrfti ekki einmitt jafnaðarfólk í fjármálageirann. „Ég hef alltaf haft mikla auðmýkt fyrir því að fólk er flókið,“ segir Kristrún og bætir við að það hjálpi mikið í hennar starfi. Heimurinn sé ekki svarthvítur og það sé pólitíkin ekki heldur. „Hann er það besta sem hefur komið fyrir mig“ Kristrún kynntist Einari á Kaffibarnum þegar hún var 21 árs og kannaðist þá ekkert við hann þar sem hann er fimm árum eldri en hún. „Ég hef sagt það áður og mun segja það alla mína að auðvitað elskar maður foreldra sína og fjölskyldu, og guð minn góður börnin manns, en hann er það besta sem hefur komið fyrir mig.“ „Hann á rosalega mikið í mér og ég segi þetta sem mikill femínisti sem stendur í báða fætur.“ Hún segist verulega mótuð af sambandi sínu við Einar. „Allt sem ég hef gert í minni fullorðinstíð hef ég getað gert af ákveðnu öryggi og yfirvegun vegna þess að ég hef haft svo mikla hvatningu og stuðning frá honum.“ Kristrún er mjög heimakær og reynir að takmarka öll samkvæmi vegna vinnu eins og hún getur. „Sumir eru kannski ósammála því og finnst að ég ætti að vera á fleiri stöðum en ég rek mitt líf og heimili þannig að ég er bara í vinnu og tek mjög takmarkaðan þátt í hlutum sem gerast utan vinnu.“ Hún vaknar klukkan fimm á morgnana og undirbýr sig fyrir daginn áður en dætur hennar vakna, fer svo með aðra þeirra á leikskólann og reynir að sækja tvisvar í viku. Vinnu sinnar vegna er hún mjög upptekin og segir mikla virðingu fyrir því borna á heimilinu. Hún getur talað við Einar um hvað sem er og lýsir honum sem einstökum manni. Annað hvort gæti hún sinnt starfinu með ung börn eða ekki Kristrún þekkir í raun ekkert annað en að vera í pólitík með lítil börn. Þegar hún var kjörin formaður Samfylkingarinnar var hún gengin sex mánuði á leið með yngri dóttur sína sem reyndist svo vera afar vært barn og gat því fylgt henni á hina ýmsu fundi. „Það voru margir sem héldu að það væri margra ára prójekt sem ég væri búin að plana og ætla mér en það var ekkert þannig,“ segir Kristrún um formannskjörið. „Ég fer í framboð 2021 upphaflega til þings. Ég fékk strax mikla athygli í þeirri kosningabaráttu sem kom mér algjörlega að óvörum. Það var strax farið að tala um mig sem formann.“ „Ég var ekkert búin að taka ákvörðun um það fyrr en þarna í júlí áður en ég býð mig fram af því að ég var meðal annars ólétt.“ Hún hafi ákveðið að annaðhvort gæti hún sinnt starfinu með börnin sín eða ekki. Ef fólki þætti hún ekki vera að standa sig þá skyldi hún stíga til hliðar. „En ég ætla ekki að brenna allar brýr heima hjá mér til að láta þetta ganga upp.“ Hún sé með heilt þorp af góðu fólki sem aðstoði þau hjónin við að láta dæmið ganga upp. Finnst gott að láta ganga hressilega á sig Fólk hefur gjarnan sterkar skoðanir á forsætisráðherra og hans störfum. Kristrún hefur skilning á því en hennar leið til að takast á við áreitið sé að liggja ekki yfir fréttum og samfélagsmiðlum. Hún sé vel upplýst en það geti verið yfirþyrmandi að fylgjast með öllu sem aðrir segja. Hún minnir sig líka á að það hafi ekki öllum líkað vel við hana áður en hún tók við starfinu, það sé óhjákvæmilegt. Hún reyni þó að einangra sig ekki og segist alls ekki óhrædd við að mæta fólki í persónu og ræða við þá sem eru ósammála henni. „Mér finnst bara gott að mæta og láta ganga svolítið á mig. Mér finnst það alls ekki óþægilegt og mér líður oft best í viðtölum þegar gengið er svolítið hressilega á mig.“ Þá geti hún svarað því sem fólkið er að hugsa. „Þú átt ekki að forðast að mæta í viðtöl. Þú mætir, hlustar og meðtekur, ferð ekki í vörn, útskýrir og stundum bara tekurðu til þín. En þú ert ekki að dvelja í skoðunum fólks því það mun alltaf hafa skoðun á þér.“ Hún segist bera ómælda virðingu fyrir embættinu og áttar sig á því að það sé starfið sem fólk beri virðingu fyrir og geri kröfur til. Hún nái að aðskilja persónu sína frá embættinu og áttar sig á að hún sjálf er ekki merkilegri en nokkur annar. Sjálf kunni hún að meta fólk sem tekur sig ekki of hátíðlega og hefur gaman af fólki sem gerir grín að sjálfu sér. Það gerir hún sjálf og reynir gjarnan að hugsa með sér þegar hún lendir í flóknum aðstæðum að úr verði góð saga einn daginn. Kristrún Frostadóttir þekkir ekki annað en að vera í pólitík með ung börn. Hún tekur takmarkaðan þátt í samkvæmum utan vinnu og þó annríkið sé oft mikið nýtur hún mikils stuðnings eiginmanns síns sem hvetur hana áfram. Rætt var við Kristrúnu Frostadóttur í hátíðarviðtali í þættinum Jóladagsmorgunn á Rás 2. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.