Zelensky til fundar við Trump fljótlega

Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti ætlar til fundar við Donald Trump Bandaríkjaforseta á næstu dögum til að reyna að liðka fyrir í friðarviðræðum við Rússa. Zelensky sagðist á samfélagsmiðlum í morgun hafa komist að samkomulagi við Bandaríkjastjórn um fund á hæsta stigi með Trump „í nálægri framtíð“, eins og hann orðaði það. „Það er margt hægt að ákveða fyrir áramót,“ sagði hann en nefndi ekki nákvæma dagsetningu. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Úkraínu hafa sent tillögu að friðaráætlun til stjórnvalda í Moskvu. Vopnahlé getur hafist um leið og Rússar samþykkja áætlunina. Samkvæmt henni yrðu víglínur í Úkraínu frystar við núverandi staðsetningu. Zelensky hefur fundað með Trump í Hvíta húsinu nokkrum sinnum á þessu ári.AP