Þriðjudagar á Hólmsheiði eru sérstakir. Þá eru haldin konukvöld meðal fanga og sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum. „Við erum að búa til dagskrá sem þær taka þátt í að gera og hafa þetta eflandi og virkja þær félagslega saman líka,“ segir Sigríður Birna Sigvaldadóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Á konukvöldum stunda konurnar alls konar sjálfsdekur. Þær hugleiða, fara í jóga, karókí og baka svo eitthvað sé nefnt. Konukvöldin hófust um mitt síðasta ár og hafa gefið góða raun. Ekki hafa verið fleiri konur áður í afplánun á sama tíma. „Eins og staðan er í dag er 21 kona hérna hjá okkur, þetta er sögulegt hámark í fangelsismálakerfinu hjá okkur á Íslandi. Það er greinilegt að þetta er að hækka,“ segir Theodóra Fanndal Torfadóttir, staðgengill varðstjóra á Hólmsheiði. Af hverju ? „Að megninu til eru þetta erlendar konur, burðardýr sem eru hérna hjá okkur.“ Rauði krossinn heldur námskeið sem kallast Aðstoð eftir afplánun en það virtist síður ná til kvenna. Annað gildir um konukvöldin. „Þegar þau eru mæta allar konurnar,“ segir ein þeirra sem situr inni fyrir fíkniefnainnflutning. Hún vill ekki láta nafns síns getið. „Konukvöldin gefa okkur sjálfstraust og gera lífið auðveldara á erfiðum tímum.“ Af hverju eru tímarnir erfiðir? „Ég þekki engan hér og sakna barnsins míns og foreldra. En ég reyni að halda í jákvæðnina,“ segir hún. „Flestar af þeim eru með mikla áfallasögu og erfiða. Og einstaklingar sem eru í afplánun eru að ganga í gegnum sitt erfiðasta tímabil og alls konar tilfinningar sem fylgja því,“ segir Sigríður Birna. „Þetta hjálpar klárlega við að styrkja þær, hingað koma konur brotnar,“ segir Theodóra. „Við erum sálfélagslegur stuðningur fyrir konurnar. Við erum bara til staðar fyrir þær og að hlusta, sem er mjög mikilvægt, þær tala oft sjálfar um það. Við erum hlutlaus aðili sem erum ekki að vinna innan kerfisins,“ segir Sigríður. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun og minnka jaðarsetningu. „Stóra markmiðið er auðvitað bara að minnka endurkomutíma. Það gerum við með þessu betrunarkerfi sem við erum með hér á Íslandi, og þar af leiðandi fækkar brotaþolum í samfélaginu, þessi verkefni eru gríðarlega mikilvægur þáttur í þeim markmiðum.“ Nær konukvöld tilskyldum markmiðum? „Alveg klárlega. Þetta eflir þær í sjálfstrausti og styrkir þær á öllum sviðum einhvern veginn, að þær átti sig á að þær geta gert miklu meira en þær halda. Ég trúi því að þær komi betri út í samfélagið eftir þetta.“ Ég trúi því að þær komi betur út í samfélagið, segir varðstjóri á Hólmsheiði um konukvöld þar sem kvenfangar fá sálfélagslegan stuðning. Aldrei hafa verið fleiri konur á sama tíma í afplánun á Hólmsheiði.