Gemlufall í norðanverðum Dýrafirði er einn fimm bæja í firðinum sem varð rafmagnslaus í hátt í sólarhring frá því að Gerðhamralína fór í sundur í Hjarðardalsá á jólanótt og þar til skömmu eftir miðnætti í nótt. Á bænum býr Jón Skúlason og er þar með ferðaþjónustu og fjárbúskap. „Þetta er allt hægt í einn sólarhring, við höfum séð það svartara. Það er engin mjólkurframleiðsla hér á svæðinu að verða - þetta er ekkert mál með sauðfjárbú miðað við mjólkurbændur,“ segir Jón um áhrif rafmagnsleysisins. „Það var hlýtt - 7-8 stiga hiti. Við máttum þakka fyrir að það var ekki 10 stiga frost og bylur,“ segir Jón sem segir að nokkuð öðruvísi hefði horft við ef veður hefði verið verra. Eldað á prímus og notalegheit við spil Á heimili Jóns og fjölskyldu dvöldu fimm yfir jólin. Jólamatinn, sem var hangikjöt, hafði Jón soðið á Þorláksmessu. Þá þurfti bara að hita meðlætið og það gerði fjölskyldan á prímus. „Við héldum jólin við kertaljós, við spiluðum og höfðum það notalegt,“ segir Jón. Starfsmenn Orkubús Vestfjarða vörðu bróðurpartinum af jólanótt og jóladegi í að koma rafmagninu á í Dýrafirði. Jón segist afar þakklátur fyrir skjót viðbrögð en rafmagn fer reglulega af á bæjunum og því eru ábúendur við öllu búnir og útbúnir ef til þessa kemur. Olíulampar dregnir fram „Það var eins dimmt og það getur orðið en það má alltaf lýsa upp bæinn í kringum sig. Með kertum og svo drógum við fram gamla olíulampa,“ segir Jón sem segir notalegheit hafa ríkt á Gemlufalli yfir hátíðarnar. „Við spiluðum mikið, þetta voru bara notalegheit. Kósí jól.“ Jón er líka formaður sóknarnefndar Mýrarkirkju, en vegna rafmagnsleysis var ekki hægt að messa þar í gær - jóladag. „Við stefnum bara á næstu jól, kannski verður fundinn einhver annar dagur. Það er ekkert stress hér, ekkert messustress.“