Fyrsta barnið sem fæðist í þorpinu í 30 ár

Lítið fjallaþorp á Ítalíu vakti mikla athygli á dögunum af þeirri ástæðu að þar fæddist barn. Þetta er fyrsta barnið sem fæðist í þorpinu í þrjátíu ár. Orðin fræg þó hún sé bara 9 mánaða Alla jafna vekja fæðingar barna ekki mikla athygli enda reglulegur atburður á flestum stöðum í heiminum. Í fjallaþorpinu Pagliara dei Marsi um miðbik Ítalíu er raunin þó önnur. Þar fæddist barn, stúlka að nafni Lara Bussi Trabucco, í mars. Það var í fyrsta skipti í þrjátíu ár sem barn fæddist í þorpinu. Með fæðingu Löru litlu fór fólksfjöldi í þorpinu upp í tuttugu. Fjallað er um fæðinguna í breska miðlinum The Guardian . Þar segir að fleiri kettir búi í þorpinu en fólk, það er staðsett í brekkum Girifalco-fjalls í Abruzzo-héraði. Allir þorpsbúar komu í skírn Löru litlu, þar á meðal kettirnir. Barnið er svo óvenjuleg sjón að hún er orðin helsta aðdráttarafl fyrir ferðamenn á svæðinu. „Fólk sem vissi ekki einu sinni að þorpið væri til kom aðeins af því að það hafði heyrt um Löru. Hún er aðeins níu mánaða en strax orðin fræg,“ segir Cinzia Trabucco, móðir Löru. Fæðingartíðnin ein sú lægsta í ESB Ítalir hafa barist við fólksfækkun síðustu 16 ár. Aldrei hafa færri fæðst en árið 2024 eða tæplega 370 þúsund. Fæðingartíðnin í landinu er einnig ein sú lægsta í Evrópusambandinu. Ýmsar ástæður eru fyrir þessari þróun, meðal annars atvinnuöryggi eða skortur á því, ónægur stuðningur við ungar mæður, ófrjósemi og fleiri ákveða að eignast ekki börn. Giuseppina Perozzi, bæjarstjóri Pagliara dei Marsi, segir bæinn þjást af mikilli fólksfækkun sem hafi aukist vegna fráfalls elsta fólksins án þess að nokkur kynslóðaskipti hafi átt sér stað. Perozzi býr aðeins nokkrum húsum frá Löru og fjölskyldu hennar. Hún segist þakklát þeim Cinziu Trabucco og Paolo Bussi, eiginmanni hennar, fyrir að stofna fjölskyldu. Hún vonar að þau veiti fleirum innblástur til að stofna til fjölskyldu. Trabucco er 42 ára og Bussi 56 ára. Þau fengu þúsund evra fæðingarstyrk þegar Lara fæddist. Það jafngildir rúmlega 150 þúsund krónum. Styrkinn fær fjölskylda fyrir hvert fætt eða ættleitt barn. Hann er hluti af stefnu Giorgiu Meloni, forsætisráðherra, og ríkisstjórnar hennar til að fá fleira fólk til að eignast börn og hefur verið í gildi síðan í janúar á þessu ári. Aðaláskorun þeirra Trabucco og Bussi er að fá pössun fyrir Löru svo þau geti unnið. Þau hafa einnig áhyggjur af menntun hennar í framtíðinni. Enginn skóli né leikskóli er í þorpinu en í nágrannabænum Castellafiume er hægt að sækja þá þjónustu. Ekki er alls víst hvort skólinn og leikskólinn verði áfram opnir þar sem fá börn eru í þorpinu. Trabucco segir að það þurfi að gjörbylta öllu kerfinu í kringum barneignir í landinu. Ekki séu nægir fjárhagslegir hvatar til þess að stöðva þá þróun sem sé í gangi núna. „Við búum í landi með háa skatta en það þýðir ekki góð lífsgæði eða gott velferðarkerfi.“