15 og 17 ára piltar réðust á unglingspilt með rafvopni, höggum og spörkum

Fjórir piltar, fimmtán og sautján ára, voru í liðinni viku dæmdir í skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hópárás á unglingspilt í apríl í fyrra. Piltarnir höfðu drenginn á brott með sér í bíl og óku með hann í Heiðmörk. Þar réðust þeir á drenginn með höggum og spörkum, með þeim afleiðingum að framtennur brotnuðu. Þeir gáfu drengnum rafstuð með rafvopni, ógnuðu honum með hnífi, og skildu hann svo eftir í Heiðmörk, beran að ofan og skólausan. Piltarnir og unglingsdrengurinn þekktust ekki, en þeir sögðust hafa ráðist á hann vegna ásakana um kynferðisofbeldi. Tekið var tillit til ungs aldurs allra ákærðu við ákvörðun refsingar. Þrír þeirra höfðu ekki gerst brotlegir áður. Þeir voru dæmdir í fjögurra, sjö og átta mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Þá var þeim gert að greiða brotaþola 1,2 milljónir króna í miskabætur.