Fær ekki bætur vegna reykeitrunar þegar rúta brann

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum telur ökumann sem varð fyrir reykeitrun þegar rúta brann við Þingvallavatn árið 2023 ekki eiga rétt á bótum úr slysatryggingu ökumanns. Eldur kom upp í rútunni þann 4. júlí 2023 við Þingvallavatn. Ásamt ökumanni voru 27 farþegar í rútunni þegar eldurinn kom upp. Í lögregluskýrslu segir að ökumaðurinn hafi stöðvað rútuna í vegarkanti og komið öllum farþegum út. Engum farþega varð meint af vegna eldsins. Eftir að hafa komið farþegum út kom ökumaðurinn öllum farangri úr bílnum. Í málsatvikum segir að hann hafi andað að sér töluverðum reyk meðan á öllu þessu stóð. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hefur fellt úrskurð í bótakröfu ökumanns sem varð fyrir reykeitrun þegar rúta brann við Þingvallavatn árið 2023. Nefndin telur ökumanninn ekki eiga rétt á bótum fyrir líkamstjón úr slysatryggingu ökumanns. Greindist með öndunarfærasýkinu Ökumaðurinn leitaði á heilsugæsluna í Mosfellsbæ um tveimur mánuðum eftir að slysið átti sér stað og var þar greindur með öndunarfærasýkingu af völdum slyssins. Degi síðar leitaði hann á bráðamóttöku vegna mæði og áframhaldandi einkenna. Hann var lagður inn á Landspítala 24. ágúst 2023. Fyrir slysið hafði ökumaðurinn verið greindur með lungnateppu sem hann sagði hafa versnað mikið eftir að slysið átti sér stað. Hann taldi tjón sitt mega rekja til þess að eldur kviknaði í rútunni á meðan hann ók bifreiðinni og að þá megi einnig flokka opnun og lokun hurða á meðan hann var að koma farþegum og farangri úr bílnum sem eðlilega notkun rútunnar. Engar bætur þar sem bíllinn var stopp Ökumaðurinn fór eftir þetta fram á bætur úr slysatryggingu ökumanns. Þeirri kröfu var hafnað þann 13. janúar 2025 á þeim grundvelli að slysið gæti ekki verið rakið til notkunar á ökutækinu. Tryggingarfélagið taldi ökumanninn ekki hafa orðið fyrir líkamstjóni vegna notkunar af rútunni. Því ætti hann ekki rétt á bótum úr slysatryggingu ökumanns. Úrskurðarnefndin leit svo á að átakspunktur málsins fælist í því hvort líkamstjón mannsins mætti fella undir lög um ökutækjatryggingar. Þá væri einnig ágreiningur um hvort maðurinn hefði verið við stjórn ökutækisins þegar hann hlaut reykeitrunina. Í áliti nefndarinnar segir að ef ökutæki er ekki á hreyfingu verði tjón að hafa orðið vegna sérstakra eiginlega þess svo hægt sé að rekja tjón til notkunar ökutækisins. Maðurinn hafi andað að sér reyknum aðallega eftir að hann stöðvaði hana og því heyri tjón hans ekki undir slysatryggingu ökumanns.