Lögregla lokaði í dag tveimur fyrirtækjum fyrir brot á lögum um smásölu áfengis. Um er að ræða fyrirtækin Smáríkið og Nýju Vínbúðina sem eru netverslanir sem selja áfengi og bjóða upp á heimsendingu eða að áfengi sé sótt. Árni Friðleifsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir fyrirtækjunum hafa verið lokað á grundvelli áfengislaga en gildandi reglugerðir kveða á um að áfengisútsölustaðir skuli vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar. Bæði fyrirtækin hljóta sektir fyrir brotin. Annað fyrirtækið er þó með blandaða verslun og var þó aðeins þeim helmingi starfseminnar sem snýr að sölu áfengis lokað. Á heimasíðu Smáríkisins kemur fram að lögregla hafi lokað afhendingarstöðvum fyrirtækisins í dag. Starfsmaður Nýju vínbúðarinnar staðfesti við fréttastofu að afhendingarstöðvum fyrirtækisins hafi verið lokað. Athygli vekur að þetta eru sömu tvö fyrirtæki sem lögreglan hafði afskipti af á sama degi fyrir ári síðan. Lögregla gat þó ekki staðfest hvort sektir fyrir brot væru hærri þar sem þau væru endurtekin.