Konur á aldrinum átján fram á níræðisaldur dvöldu í Kvennaathvarfinu yfir jólin. Jólahaldið var eins og á stóru heimili, en sporin þangað geta verið þung. Mörg börn upplifa örugg jól í fyrsta skipti í Kvennaathvarfinu. Átta konur og sex börn héldu þar jól, það yngsta nokkurra mánaða. „Yfir jólin voru átta konur og sex börn í dvöl í Kvennaathvarfinu,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. Er það svipað og hefur verið undanfarin jól? „Það er svo sem engin regla á því. Við vitum aldrei hvernig jólin verða. Stundum kemur smá sprengja - stundum ekki. Þetta er eins og aðrir mánuðir, algerlega óútreiknanlegt.“ Erfiðara að leita til athvarfsins á jólum Linda segir að það sé oft erfiðara fyrir konur að leita til Kvennaathvarfsins um jól en aðra daga. „Þetta er eitthvað sem er stundum vel skipulagt, eitthvað sem konur hafa hugsað lengi. Stundum koma konur eftir hátíðarnar, reyna að þrauka hátíðarnar með börnin heima og koma svo. Stundum koma þær jafnvel í lögreglufylgd því að jólin geta verið erfiður tími. Það er mikil samvera, það eru allir saman inni á heimilinu og það á það til, ofbeldið, að aukast um hátíðarnar.“ Jólaundirbúningurinn og jólahaldið í Kvennaathvarfinu er eins og á stóru heimili - þar dvelja konur og börn af ólíkum menningarheimum en um 70% eru af erlendum uppruna. Það þarf þó ekki að þýða að kynbundið ofbeldi sé algengara meðal þeirra en hjá þeim sem eru fæddir á Íslandi, því fólk af erlendum uppruna nýtur gjarnan minni stuðnings og á í færri hús að venda. Börnin sem höfðu aldrei farið áður á jólaball Eitt af því sem sameinar þessar konur, að sögn Lindu, er að vilja eiga hátíðlega stund með börnunum sínum í öruggu umhverfi. „Margar þeirra tala um að þetta séu fyrstu jólin sem börnin finna til öryggis og geta haldið hátíðleg jól. Það eru margar stundirnar: Jólaballið þar sem mörg börn mættu sem höfðu aldrei farið á jólaball. Hér eru börn sem hafa mörg hver aldrei hitt önnur börn, verið í mikilli einangrun. Þannig að það eru margar stundirnar hér sem við höfum þurft að þerra tárin.“ Börn og konur á ýmsum aldri Það sem af er ári hafa um 1.800 viðtöl verið veitt hjá Kvennaathvarfinu. Vakt- og neyðarsími er opinn allan sólarhringinn og um 140 konur og 120 börn hafa dvalið í athvarfinu í ár. „Það eru konur af öllum stéttum, með allan mögulegan bakgrunn. Á öllum aldri - allt frá 18 ára upp í 85 ára,“ segir Linda og segir að konur á svo breiðu aldursbili hafi dvalið í Kvennaathvarfinu yfir jólin. Og börnin eru líka á öllum aldri - um jólin var það yngsta nýorðið fjögurra mánaða og það elsta á táningsaldri. Ef Kvennaathvarfið væri ekki til - hvar væru þessar konur og þessi börn yfir jólin? „Ég myndi ímynda mér að margar þeirra væru enn inni á ofbeldisheimilum. Það er mjög flókið að stíga út úr ofbeldi,“ segir Linda. Vaktsími Kvennaathvarfsins er 561 -1205. Hann er opinn allan sólarhringinn og þar er hægt að fá hjálp, stuðning og ráðgjöf.