Metfjöldi eldri borgara skrá sig í háskólanám

Metfjöldi eldri borgara í Svíþjóð hefur skráð sig í háskólanám. Þeir skrá sig í nám til að hitta fólk í raunheimum og eru hungraðir í að læra meira. Senioruniversitet er rekið í samstarfi við Folksuniversitet, fræðslumiðstöð fyrir fullorðna, og um þrjátíu útibú eru um alla Svíþjóð. Þar er boðið upp á námshópa, fyrirlestraraðir og háskólanámskeið. Hægt er að læra tungumál, stjórnmál, læknisfræði og arkitektúr. Vinsældir námsins eru svo miklar í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, að um 100 sjálfboðaliðar sjá um námskeið um alla borgina. Vinsælasti viðburður skólans er vikuleg fyrirlestraröð sem er haldin hvern þriðjudag. Um þúsund gestir mæta í hverri viku. Hungur í menntun Dæmi um námskeið sem boðið er upp á eru „Listin að veita Nóbels-verðlaun“, sem er haldið af fyrrum meðlimi nóbelsnefndarinnar, „Upplýsingaóreiða og gervigreind“ og „Frá sápuóperum til menningararfs og öfugt“. Inga Sanner, formaður Senior-universi-tet í Stokkhólmi, segir aðsóknina aldrei hafa verið meiri. „Þátttakan minnkaði í heimsfaraldrinum en við höfum náð sömu tölu og fyrir hann og það fjölgar enn. Það hafa aldrei fleiri skráð sig í nám.“ Gunnar Danielsson, framkvæmdastjóri Folksuniversitet, segir fólk þrá að læra sér til ánægju, það sé fagnaðarefni í þjóðfélagi sem sé sífellt uppteknara af námi og menntun til undirbúnings fyrir vinnumarkaðinn. Hann segir fólk koma á námskeið í skólanum til að hitta annað fólk í raunheimum frekar en netheimum. Sanner er sjálf komin á eftirlaun en er prófessor í sagnfræði. Hún segir eldra fólk árvökult og með gríðarlega löngun og hungur í menntun. „Það er mjög áhugavert hvað það eru margir fróðleiksfúsir sem vilja læra meira um heiminn, það er svo mikil þörf á okkar tímum.“