Karlmaður á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í Suður-Noregi en hann er sakaður um að reyna að bana föður sínum á aðfangadagskvöld. NRK greinir frá. Árásin átti sér stað í borginni Arendal sem er í fylkinu Ögðum. Faðirinn, sem er á áttræðisaldri, er með stunguáverka eftir árásina en þó ekki í lífshættulegu ástandi. Sonurinn var upphaflega handtekinn fyrir líkamsárás Sondre Halvorsen, talsmaður lögreglunnar í Ögðum, segir lögreglu hafa fengið tilkynningu um ofbeldisfullt atvik í heimahúsi í Arendal skömmu fyrir 19 á aðfangadagskvöld. Feðgarnir voru staddir á heimili föðursins í jólaboði. Það kom til átaka þeirra á milli vegna þess að faðirinn vildi að sonurinn yfirgæfi heimilið. Faðirinn var færður á sjúkrahús og sonurinn handtekinn, upphaflega fyrir líkamsárás en sökinni var síðar breytt í manndrápstilraun. Faðirinn er ekki sagður vera alvarlega slasaður en lögregla gerði hníf upptækan eftir árásina. Fara fram á að sonurinn verði á sjúkrahúsi yfir varðhaldstímann Sonurinn var færður fyrir héraðsdóm Agða í morgun. Þar lýsti hann yfir sök sinni en verjandi sonarins, Eirik Glad Balchen, sagði skömmu síðar að skjólstæðingurinn hefði enn ekki tekið afstöðu til þess hvort hann sé sekur eða saklaus. Það geri hann ekki fyrr en búið sé að ganga úr skugga um að hann sé sakhæfur vegna andlegra veikinda. Lögregla fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir syninum, sem mótmælti því. Hann fer fram á að vera vistaður á sjúkrahúsi yfir varðhaldstímann. „Hann vill hjálp, hann þarf hjálp og hann vill þá hjálp á sjúkrahúsi,“ er haft eftir Balchen. Sonurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 9. janúar.