Ísrael hefur fyrst ríkja viðurkennt sjálfstæði Sómalílands, sem var sjálfsstjórnarhérað í Sómalíu. Forsætisráðherrann Benjamín Netanjahú hefur boðið forsetanum Abdirahman Mohamed Abdullahi í heimsókn til Ísraels og boðað samvinnu á sviði landbúnaðar, tækni og heilbrigðismála. Forsetinn fagnaði viðurkenningunni í færslu á X sem hann sagði upphaf mikilvægrar samvinnu og kvað landið fljótlega geta orðið hluti af Abrahams-samkomulaginu. Netanjahú hafði sagst myndu tjá Donald Trump Bandaríkjaforseta þann vilja Sómalílands. Trump hafði milligöngu um gerð samkomulagsins á fyrra kjörtímabili sínu þar sem ýmis múslimaríki féllust á að viðurkenna sjálfstæði Ísraels og taka upp stjórnmálasamband við landið. Fjölmenni flykktist út á götur höfuðborgarinnar Hargeisa til að fagna ákvörðun Ísraela. Utanríkisráðherrar Egyptalands, Djíbútí og Tyrklands hafa fordæmt ákvörðun Ísraelsstjórnar auk þess sem Afríkusambandið hafnar allri viðurkenningu á sjálfstæði Sómalílands. Mahamoud Ali Youssouf, leiðtogi sambandsins, segir Sómalíland óaðskiljanlegan hluta sambandslýðveldisins Sómalíu, aðildarríkis sambandsins. Hann segir allar tilraunir til að grafa undan fullveldi og landsréttindum Sómalíu geti skapað hættulegt fordæmi sem ógni friði og stöðugleika um alla álfuna. Það sagði einnig í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Sómalíu, sem sagðist óttast að átök brytust út. Sómalíland lýsti einhliða yfir sjálfstæði frá Sómalíu árið 1991 og hefur síðan þá kallað eftir viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Abdullahi forseti hefur lagt mikla áherslu á hana frá því hann tók við völdum á seinasta ári.