Ráðamenn í Rússlandi saka Úkraínuforseta og bandamenn hans í Evrópusambandinu um að grafa undan friðaráætlun sem Bandaríkjastjórn upphaflega dró upp í samráði við Rússa. Volodymyr Zelensky ætlar að leggja ný drög að 20 punkta áætlun fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta á fundi sem hefur verið boðaður í Flórída á morgun, sunnudag. Trump sagði í samtali við vefritið Politico að Zelensky hafi ekkert í höndunum fyrr en hann sjálfur hafi veitt samþykki sitt. „Sjáum hvað hann hefur,“ sagði Trump. Zelensky hefur í aðdraganda fundarins rætt við Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATÓ, Friedrich Merz Þýskalandskanslara og fleiri Evrópuleiðtoga. Talsmaður breska forsætisráðherrans Keirs Starmer sagði leiðtogana hafa áréttað óbilandi stuðning við sanngjarnan og varanlegan frið í Úkraínu og mikilvægi þess að samkomulag náist á næstu dögum. Sergei Ryabkov aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands segir samkomulag þurfa að vera innan þeirra marka sem Trump og Vladimír Pútín sammæltust um á fundi í ágúst. Annað verði ekki samþykkt. Meðal þess sem segir í nýju drögunum, sem eru mjög ólík þeim upprunalegu, er að víglínur yrðu frystar við núverandi staðsetningu og Rússum gert að draga herlið sitt úr nokkrum héruðum í austurhlutanum. Úkraína þarf ekki að hætta við aðildarumsókn að Atlantshafsbandalaginu samkvæmt drögunum. Bandaríkin, NATÓ og evrópskir samherjar veittu Úkraínu jafnframt sterkar öryggistryggingar auk þess sem Rússar skuldbindu sig til að ráðast hvorki á Úkraínu né önnur Evrópuríki. Landsyfirráð og framtíð Zaporizhzhia-kjarnorkuversins eru helstu ásteitingarsteinarnir. Zelensky hefur sagt að ekkert landsvæði yrði gefið eftir nema landsmenn samþykktu það í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Við komumst á snoðir um hug þeirra til samkomulagsins á næstu dögum,“ sagði Zelensky og bætti við að hann teldi Rússa gera allt til að komast hjá því að semja um frið.