Palestínumaður stakk unga konu til bana og ók bíl á roskinn karlmann norðanvert í Ísrael

Palestínumaður á fertugsaldri stakk unga konu til bana í borginni Beit Shean í Norðurumdæmi Ísraels í gær og myrti roskinn mann með því að aka bíl sínum á hann. Unglingur meiddist lítillega eftir að maðurinn keyrði á hann. Ísraelsk lögregluyfirvöld segja árásarmanninn hafa laumað sér inn í Ísrael nokkrum dögum fyrr. Hann hafi særst í skotbardaga og verið fluttur á sjúkrahús. Hann hafi verið búsettur í bænum Qabatiya og fengið bíl vinnuveitanda síns að láni. Sá var einnig handtekinn að sögn lögreglu. Daginn áður hafði ísraelskur varaliðshermaður ekið á Palestínumann við bænir á Vesturbakkanum og nokkrum dögum fyrr skutu hermenn táning til bana í Qabatiya. Innri rannsókn er hafin á drápinu þar sem myndskeið sýnir að ungmennið ógnaði hermönnunum ekki á nokkurn hátt, þrátt fyrir yfirlýsingar þeirra um annað. Húsleit á heimili mannsins sem verður rifið niður Ofbeldi hefur færst mjög í vöxt á Vesturbakkanum á báða bóga frá upphafi stríðsins á Gaza. Ísraelski varnarmálaráðherrann Israel Katz fyrirskipaði hernum að leita uppi og uppræta alla hryðjuverkamenn í Qabatiya, sem hann hlýddi. Hermenn leituðu á heimili árásarmannsins og undirbjuggu svo niðurrif þess, samkvæmt yfirlýsingu hermálayfirvalda. Palestínska fréttastöðin Wafa segir nokkra unga menn hafa verið handtekna í bænum og að herinn hafi fyrirskipað útgöngubann. Hamas-hreyfingin segir í yfirlýsingu að árásin á föstudag sé birtingarmynd uppsafnaðrar reiði almennings vegna ítrekaðra brota Ísraelsríkis gegn Palestínumönnum. AFP-fréttaveitan hefur tekið saman tölur frá yfirvöldum sem sýna að minnst 38 hafi fallið fyrir hendi Palestínumanna innan Ísraels frá upphafi stríðsins auk 44 ísraelskra hermanna og almennra borgara á Vesturbakkanum. Á sama tíma sýna tölur frá heilbrigðisráðuneyti Palestínu að ísraelskir hermenn og landtökufólk hafi drepið á annað þúsund Palestínumenn á Vesturbakkanum. Einhverjir vígamenn eru sagðir þar á meðal en jafnframt tugir eða hundruð almennra borgara.