Jarðskjálfti af stærðinni 3,1 varð við Kleifarvatn tólf mínútur fyrir tvö í nótt. Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands , segir allmarga mun smærri eftirskjálfta hafa fylgt í kjölfarið. Tilkynningar bárust að sögn Elísabetar frá Hafnarfirði um að skjálftinn hefði fundist og einnig fannst fyrir honum hér í Efstaleiti. Elísabet segir engin merki um gosóróra og að jarðskjálftar séu algengir þarna um slóðir. Fyrir rúmum mánuði tilkynnti Veðurstofan að landsig við Krýsuvík hefði nokkurn veginn stöðvast. Á Þorláksmessu greindi Veðurstofan frá því að kvikusöfnun undir Svartsengi væri hæg en stöðugt, svipað og síðustu vikur. Hæg kvikusöfnun valdi aukinni óvissu um tímasetningu næsta eldgoss en áfram séu auknar líkur á kvikuhlaupi og gosi. Næstu tvær vikur á undan hafði jarðskjálftavirkni verið lítil og óbreytt hættumat gildir því til 6. janúar. Það verði uppfært verði breytingar á virkninni.