Parísarlögreglan hefur handtekið hálfþrítugan mann frá Malí grunaðan um að hafa stungið þrjár konur á jafnmörgum jarðlestarstöðvum í gærdag. Maðurinn fannst með því að rekja slóðina gegnum símann hans og með fulltingi eftirlitsmyndavéla. Innanríkisráðuneytið segir manninn hafa hlotið fangelsisdóm í janúar 2024 fyrir kynferðisbrot og grófan þjófnað. Honum hafi verið gert að yfirgefa Frakkland eftir að hann var látinn laus í júlí undir eftirliti en ekki fengið nauðsynleg ferðaskilríki. Því hafi honum verið sleppt níutíu dögum síðar, lögum samkvæmt. Innanríkisráðherrann Laurent Nunez kveðst harma það og áréttaði að áhersla væri lögð á að koma skilríkjalausum útlendingum sem hefðu framið glæpi brott úr landinu hið fyrsta. Lögreglustjóri fagnar skjótum viðbrögðum Patrice Faure, lögreglustjóri Parísar, fagnar því hversu skjótt tókst að hafa hendur í hári árásarmannsins, en hann náðist innan við þremur klukkustundum eftir fyrstu atlöguna. Það megi þakka skjótum viðbrögðum margra deilda lögreglunnar. Bráðaliðar sinntu konunum og fluttu tvær þeirra á sjúkrahús, hvorug er sögð alvarlega særð. Sú þriðja leitaði sjálf læknisaðstoðar að sögn lögregluyfirvalda. Nunez kallaði í síðustu viku eftir auknum viðbúnaði lögreglu yfir hátíðarnar um gervallt Frakkland í ljósi aukinnar hryðjuverkaógnar og hættu á almennri upplausn. Einkum yrði að hafa vakandi auga með almenningssamgöngum. Svipað er uppi á teningnum í fleiri evrópskum höfuðborgum, vegna uppljóstrana um skipulagningu hryðjuverka á viðburðum tengdum jólum og helgihaldi.