Vopnahlé tekur umsvifalaust gildi milli Taílands og Kambódíu

Stjórnvöld í Kambódíu og Taílandi hafa undirritað vopnahléssamkomulag sem ætlað er að ganga í gildi umsvifalaust. Reuters hefur eftir varnarmálaráðuneyti Kambódíu að samkomulag hafi náðst eftir þriggja daga viðræður, sem hófust á aðfangadag. Þeim var komið á eftir neyðarfund utanríkisráðherra Samtaka Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN). Ákvæði samkomulagsins ná til beitingar allra vopna og banna árásir á almenna borgara, borgaralega og hernaðarlega innviði beggja ríkja, alltaf og alls staðar. Bæði ríki halda óbreyttum fjölda hermanna, en hvorugt má kalla meira lið að landamærasvæðunum. Haldi ríkin skilmála vopnahlésins næstu þrjá sólarhringa verður átján kambódískum stríðsföngum sleppt. Ríkin féllust einnig á samvinnu um eyðingu jarðsprengja og baráttu gegn tölvuglæpum. Næstum 50 hafa týnt lífi í átökum á landamærum ríkjanna og hundruð þúsunda, jafnvel nærri milljón manns, hafa neyðst til að flýja eftir að aldagamlar deilur blossuðu upp í sumar. Því fólki verður liðsinnt við að snúa aftur til síns heima. Samkomulag náðist um vopnahlé í október fyrir milligöngu Donalds Trump Bandaríkjaforseta en það rann út í sandinn snemma í desember og átök hófust að nýju. Bandaríkin, Kína og Malasía hvöttu ríkin til að koma á vopnahléi.