Lögreglumenn þurftu að aka á bifreið til að stöðva flótta ökumanns hennar, en hann hafði ekki sinnt merkjum um að nema staðar þegar kanna átti ástand hans og ökuréttindi. Í morgunskeyti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að maðurinn hafi valdið mikilli hættu með því að aka yfir hámarkshraða töluverða vegalengd. Hann var að lokum handtekinn, grunaður um að aka sviptur ökuréttindum undir áhrifum ávana- og fíkniefna ásamt vörslu fíkniefna og fyrir að hlýða ekki stöðvunarmerki lögreglu. Auk þess greinir lögreglan frá tveimur líkamsárásarmálum þar sem fleiri en einn veittust að einum. Annað þeirra reyndist minni háttar þótt einn árásarmanna hefði verið sagður munda skóflu til árásar. Hitt málið er til rannsóknar eins og líkamsárás í miðborginni þar sem árásarmaðurinn er einnig grunaður um eignaspjöll og vörslu fíkniefna. Smávægilegur eldur kom upp í íbúð í fjölbýlishúsi í vesturhluta borgarinnar og þar um slóðir brást lögregla einnig við samkvæmishávaða og tilkynningum um grunsamlegar mannaferðir.