Norsk stjórnvöld hafa uppi áform um samfélagsmiðlabann fyrir börn undir fimmtán ára. Grunnskólar í Osló tóku fyrir farsímanotkun nemenda á seinasta ári. Allir nemendur þurfa að láta síma sína af hendi áður en þeir ganga inn í skólastofur, þótt einhverjir streitist við. Samkvæmt frumvarpsdrögum ríkisstjórnarinnar þurfa notendur samfélagsmiðla að staðfesta aldur sinn með rafrænu auðkenni. Það þýðir að foreldrum verður ekki heimilað að fara fram á undanþágu fyrir börnin sín. YLE gerir þessu máli skil á vef sínum. Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að vernda andlega heilsu barna og ungmenna ásamt því að halda markaðsöflum og glæpamönnum frá þeim. Frumvarpið er í samráðsgátt stjórnvalda og enn liggur ekki fyrir hvenær það getur orðið að lögum, hvað þá hvenær þau taka gildi. Ekki þykir útilokað að leikir verði undanþegnir banni, líka smáforrit sem börn nota við nám og samskipti sem tengjast tómstundaiðkun. Þau mótrök hafa komið fram að börn hafi rétt til að tjá sig og tengjast öðru fólki og sérfræðingar hafa sagt samfélagsmiðla færa börnum og ungmennum margvíslega gleði og góða hluti. Noregur hefur verið í fararbroddi í aðgerðum gegn símanotkun barna, meðal annars vegna þess að norsk börn eyða mestum tíma fyrir framan skjái á Norðurlöndunum. Nýleg skýrsla frá Norrænu ráðherranefndinni sýnir að einn af hverjum fimm norskum drengjum eyðir meira en fjórum klukkustundum á dag fyrir framan síma eða annan skjá. Í greinargerð með frumvarpi barna- og menntamálaráðherra segir að 90 prósent íslenskra nemenda verji þremur klukkustundum eða meira á netinu utan skóla. Norðmenn virðast almennt styðja þær breytingar sem ríkisstjórnin boðar ef marka má niðurstöður nýrrar könnunar fjölmiðlanefndar landsins. Þrír af hverjum fjórum styðja að stafrænt auðkenni þurfi til að skrá sig á samfélagsmiðla og yfir helmingi þótti fimmtán ár hæfilegur viðmiðunaraldur. Ástralir riðu á vaðið í desemberbyrjun með því að banna börnum undir sextán ára að nota ýmsa samfélagsmiðla. Danir og Evrópusambandið hafa í hyggju að setja svipaðar reglur.