Brislingur fannst í þéttum torfum nærri botni á Viðeyjarsundi í desember þegar starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar könnuðu hvernig stæði á því að hnúfubakar héldu sig þar. Vegfarendur í austurhluta Reykjavíkur kunna að hafa tekið eftir því að á undanförnum vikum hafa hvalaskoðunarskip verið á sundunum kringum Viðey. Þar hafa hnúfubakar haldið sig. Á heimasíðu stofnunarinnar segir frá því að vísindamenn hefðu frétt að þar væru þéttar fiskilóðningar sem sennilega freistuðu skíðishvalanna. Einhverja grunaði að þarna gæti síld haldið sig. Sæmundur fróði, rannsóknarbátur Háskóla Íslands, var tekinn á leigu og vísindamenn héldu í rannsóknarleiðangur út á Viðeyjarsund í birtingu snemma í desember. Eftir að hafa kannað svæðið voru net lögð beint í torfurnar og upp kom ekki síld - heldur brislingur. Í fyrri netalögninni veiddust aðeins nokkrir brislingar en í þeirri seinni veiddust um sextíu sem voru um þrettán til sextán sentimetrar. Þar veiddist líka ein ýsa. Brislingur er smágerður uppsjávarfiskur af sílaætt sem heldur sig á grunnsævi. Hann er fæða fiska, sjófugla og sjávarspendýra. Brislingur veiddist í fyrsta sinn við Íslandsstrendur árið 2017 og vitað er að hann hefur hrygnt hér við land.