Lögregla hafði áfram eftirlit með ólöglegri sölu áfengis víðs vegar um höfuðborgina í gær eftir að tvö fyrirtæki voru sektuð fyrir að afhenda áfengi í leyfisleysi. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir fyrirtækin sem brutu reglugerð um smásölu og veitingar áfengis geta átt von á sektum. Lögregla lokaði tveimur fyrirtækjum í gær, það voru Smáríkið og Nýja Vínbúðin. Það eru netverslanir sem selja áfengi og bjóða upp á heimsendingu eða að áfengi sé sótt. Lögregla hafði í framhaldi eftirlit með ólöglegri sölu áfengis og lokaði verslun á fjórum stöðum í höfuðborginni. Árni Friðleifsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir þetta hafa meðal annars verið verslanir Smáríkisins. Fyrirtækið hafi brotið þriðju grein reglugerðar um smásölu og veitingar áfengis, sem segir að sölustaðir skuli vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar. Reglugerð um smásölu og veitingar áfengis Í þriðju grein reglugerðar um smásölu og veitingar áfengis kemur fram að áfengisútsölustaðir skuli vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí. 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst. Smásala áfengis. 3. gr. Afgreiðslutími útsölustaða áfengis skal aldrei vera lengri en frá klukkan 8.00 til klukkan 23.00. Áfengisútsölustaðir skulu vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst. Árni segir að fyrirtækin hafi ekki verið sektuð á staðnum en gerð hafi verið skýrsla og að málið fari svo í rannsókn. „Þessi fyrirtæki geta átt von á sektum.“ Áfengislög Í sjöttu grein áfengislaga (lög nr. 75/1998) segir að óheimilt sé að afhenda áfengi á helgidögum þjóðkirkjunnar. Áfengislög. II. kafli. [Framleiðsla áfengis og sala á framleiðslustað.] 6. gr. a. Óheimilt er að afhenda áfengi á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst. Þessi fyrirtæki gerðust líka brotleg við sömu reglugerð á sama degi í fyrra. Árni segir að það sé ákærusviðs lögreglu að meta hvort fyrirtækin hljóti hærri sekt þar sem þetta er ekki fyrsta brot.