Hundruð þúsunda eru án rafmagns í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, eftir loftárásir Rússlandshers á borgina í nótt og morgun. Einn lést í árásunum og nítján særðust, þar á meðal tvö börn. Þriðjungur íbúa borgarinnar er án hita og um þrjú hundruð og tuttugu þúsund eru án rafmagns. Kalt er í borginni og hiti um frostmark. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, segir Rússa hafa skotið nærri fimm hundruð drónum og fjörutíu loftskeytum á borgina. Hann segir aðalskotmark Rússa verða höfuðborgina Kyiv, orkuinnviði og borgaralega innviði þar. Einn lést í árásunum sem entust í tíu klukkutíma og nítján særðust, þar á meðal tvö börn. Tveimur flugvöllum í Póllandi lokað Tveimur flugvöllum í suðaustur-Póllandi var lokað tímabundið og pólski herinn sendi orrustuflugvélar að landamærum Úkraínu. Samkvæmt upplýsingum frá hernum voru það fyrirbyggjandi aðgerðir til að tryggja öryggi lofthelgi landsins. Zelensky sagði árásir næturinnar sýna að alþjóðlegur þrýstingur á Rússa sé ekki nægilegur. Ætli Rússar að gera hátíðarnar að tíma eyðilagðra heimila, brenndra íbúða og eyðilagðra orkuvera sé aðeins hægt að bregðast við þeim sjúku árásum, eins og hann orðar það, með öflugum aðgerðum. Bandaríkin, Evrópa og margir bandamenn Úkraínu hafi hernaðarmátt til þess.