Íþróttaárið gert upp: Allt um dramatískt heimsmeistaramót í handbolta

Íslenska karlalandsliðið í handbolta átti góða frammistöðu á HM í byrjun árs. Liðið fór fullt sjálfstrausts inn í milliriðla með fjögur stig og sigur í riðlinum. Liðið lagði Egyptaland í fyrsta leik milliriðlanna og allt lék í lyndi þar til liðið mætti Degi Sigurðssyni og Króötum. Þeim leik lauk með sex marka tapi og Ísland þurfti að reiða sig á önnur úrslit. Þótt íslenska liðið hafi unnið síðasta leik mótsins gegn Argentínu með níu mörkum reyndist það ekki nóg því úrslit annarra leikja voru liðinu ekki hliðholl. Svekkjandi niðurstaða fyrir íslenska liðið sem var grátlega nálægt 8-liða úrslitum mótsins og endaði í níunda sæti. Íþróttaannállinn verður á dagskrá RÚV á gamlárskvöld klukkan 20:20.