Sér ekkert því til fyrirstöðu að Ásthildur Lóa snúi aftur sem ráðherra

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir ekkert því til fyrirstöðu að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fyrrum mennta- og barnamálaráðherra, taki aftur við ráðherrastól á nýju ári. Hann var gestur í vikulokunum í dag ásamt Berki Gunnarssyni, fyrrverandi rektor Kvikmyndaskóla Íslands, og Eyrúnu Magnúsdóttir, fjölmiðlakonu á Gímaldinu. Tveir af ráðherrum úr röðum Flokks fólksins eru frá vinnu og telur hann það ekki gott til lengri tíma að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fari með stjórn í þeirra ráðuneytum. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra er í fæðingarorlofi og kemur ekki aftur fyrr en um miðjan janúar. Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra er í veikindaleyfi. Því fer Inga Sæland, félags- og húsnæðisráðherra og formaður Flokks fólksins, með völdin í þremur ráðuneytum. Augljós kostur sé að Ásthildur Lóa stígi inn, sérstaklega ef fjarvera Guðmundar Inga reynist löng. „Ég sé ekkert því til fyrirstöðu ef flokkurinn kýs sem svo,“ segir Eiríkur. „Hvað varðar opinbera umræðu held ég að hennar mál séu uppgerð.“ Ásthildur Lóa sagði af sér embætti fyrr á þessu ári sem mennta- og barnamálaráðherra eftir fréttaflutning af ástarsambandi hennar og ungs manns, en þau eignuðust barn saman þegar Ásthildur Lóa var 23 ára en hann 16 ára. Hún hélt þó áfram sæti sínu á þingi. Eiríkur segir einnig óljóst hversu lengi Guðmundur Ingi verður frá vinnu. „Það er eitt að menn fari í fæðingarorlof, það er fyrirsjáanlegt, við vitum hvernig það verður en mál Guðmundar Inga verða að koma í ljós,“ segir Eiríkur sem telur að ef hann getur ekki tekið við embætti sínu aftur á næstu vikum þá sé betra að skipa nýjan ráðherra. „Ef flokkurinn ákveður að þau vilji setja Ásthildi Lóu þarna inn þá bara einfaldlega gera þau það,“ segir Eiríkur sem telur það augljóst að samtarfsflokkarnir í ríkisstjórninni komi til með að samþykkja það.