Spillingarrannsóknarstofnun Úkraínu, Nabu, segir að starfsfólki þess hafi verið meinuð innganga í úkraínska þingið í dag. Stofnunin rannsakar spillingarmál og segir þingmenn tengjast inn í það. Andríj Jermak, nánasti ráðgjafi Volodymyrs Zelensky Úkraínuforseta, sagði af sér fyrir mánuði eftir húsleit á heimili hans í tengslum við rannsóknina. Spillingarrannsóknarstofnunin hefur undanfarið rannsakað mál þar sem hópur manna er grunaður um að hafa lagt á ráðin um að ná stjórn á mikilvægum ríkisstofnunum, meðal annars ríkisfyrirtækinu Energoatom. Stofnunin ætlaði í húsleit á skrifstofum úkraínska þingsins í dag en sagði öryggissveitir hafa meinað þeim inngöngu. Hún telur einhverja þingmenn tengjast spillingarmálinu en vildi annars ekki tjá sig um rannsóknina en sagði hina grunuðu hafa þegið mútur fyrir atkvæði. Samkvæmt blaðamönnum úkraínska miðilsins Ukrainska Pravda var fulltrúum stofnunarinnar á endanum hleypt inn í þinghúsið. Stofnunin greindi frá þessu í dag á sama tíma og Zelensky fór með flugi til Kanada til fundar við Mark Carney forsætisráðherra og leiðtoga Evrópuríkja. Á morgun heldur hann til Flórída í Bandaríkjunum til að ræða við Donald Trump Bandaríkjaforseta um leiðir til að binda endi á innrásarstríð Rússa í Úkraínu.