Undirskriftasöfnun hafin gegn smáhýsum við Skaftafell

Íbúar í Öræfum hafa stofnað til undirskriftasöfnunar til að mótmæla byggingu um 70 smáhýsa fyrir ferðamenn á mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs við Skaftafell. Íris Ragnarsdóttir Pedersen, kennari og leiðsögumaður, býr í Svínafelli í Öræfum. „Þegar maður fer að skoða þetta mál þá er margt bogið við þetta,“ segir hún. Íris segir að rekja megi upphaf deilunnar til þess að Stefán Benediktsson, fyrrum alþingismaður og landeigandi að lóðunum, hafi á árunum 2017 til 2018 byrjað að deiliskipuleggja lóðirnar. „Í fyrstu þá stefndi í að hann vildi deiliskipuleggja allt að fimm þúsund fermetra af húsnæði og þetta féll ekki vel í kramið í samfélaginu og mætti miklum mótbyr,“ segir Íris. Byggingarmagnið hafi minnkað umtalsvert og verið lækkað niður í 35 smáhýsi á einni hæð. Í millitíðinni hafi landið verið selt og byggingamagnið tvöldað í 70 hús. Þá sé augljóst að húsin séu ekki á einni hæð. „Bara svona til að setja aðeins í samhengi þá eru hérna í Öræfum um 70 íbúðarhús á svæðinu og við búum hérna 230 íbúar í Öræfum og þessi aukning á byggingamagninu, að fara úr 35 húsum í 70 var ekki grenndarkynnt fyrir nágrönnum eða aðliggjandi landeigendum. En það ber að gera samkvæmt skipulagsreglugerð,“ segir Íris. Hún segir nýju húsin koma til með að hafa mikil áhrif á fólk sem þegar rekur þarna gistiheimili og hefur lífsviðurværi sitt af því. Þá séu þau sjónmengun í þjóðgarðinum í Skaftafelli. Íris segir miður að grannsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs hafi ekki verið skilgreint þegar honum var bætt á heimsminjaskrá Unesco þar sem slíkt hefði getað komið í veg fyrir byggðina. Annað sem spili inn í sé að innviðir sveitarinnar séu ekki í stakk búnir til að takast á við svo mikla fjölgun. „Það er verið að tvöfalda byggingarmagn í sveitinni með því að bæta við 70 húsum og slökkvilið og sjúkraflutningar eru engan veginn í stakk búnir til að takast á við þetta,“ segir hún. Framkvæmd á vegum ferðaþjónusturisa Húsin eru í eigu fyrirtækisins Arctic Circle Hotels og er það fyrirtæki í eigu Arctic Adventures og verktakafyrirtækisins Þingvangs. Artic Adventures á 60 prósenta hlut í hótelfyrirtækinu og Þingvangur 40 prósent. Arctic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins og til stendur að það verði enn stærra ef samruni þess við Kynnisferðir gengur eftir. Jóhann Ásgeir Baldursson, forstjóri Arctic Adventures, hefur áður sagt að of snemmt sé að gagnrýna útlit húsanna þar sem þau eigi eftir að taka breytingum og muni falla betur inn í umhverfið í Skaftafelli. Undirskriftasöfnunin stendur fram í mars á næsta ári. Eftir að henni lýkur segir Íris að þær verði sendar til sveitarfélags Hornafjarðar. „Í kjölfarið munum við svo berjast fyrir því að stofnuð verði heimastjórn í sveitum sveitarfélagsins þar sem allar aðal- og deiliskipulagsbreytingar þurfa að vera lagðar fyrir,“ segir hún. „Af því sveitarfélagið Hornafjörður er rosalega víðfeðmt og stjórnsýslan fer fram á Höfn í Hornafirði og við erum 130 kílómetrum frá þeim og við finnum ofsalega vel fyrir því,“ segir Íris.