Foreldrar verða að vera meðvitaðir um hvaða efni börn þeirra skoða á netinu, segir sérfræðingur hjá Heimili og skóla. Á samfélagsmiðlum sé alls konar óviðeigandi efni sem geti haft skaðleg áhrif á börn. Með tilkomu gervigreindar er æ auðveldara að búa til alls kyns myndbönd. Slíkt efni, oft kallað AI slop eða brain rot upp á ensku, flæðir yfir samfélagsmiðla. Sérfræðingur hjá Heimili og skóla segir mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hvaða efni börn þeirra skoða á netinu. „Þau fá stöðugt áreiti, heilinn bara alveg non-stop og það er náttúrlega bara ákveðin fíkn sem sem þau fara ósjálfrátt að sækjast í,“ segir Sigurjón Már Fox Gunnarsson, sérfræðingur hjá Heimili og skóla. „Það getur klárlega haft skaðleg áhrif á þau.“ Sérfræðingur hjá Heimili og skóla segir mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hvaða efni börn þeirra skoða á netinu. Á samfélagsmiðlum sé alls konar óviðeigandi efni sem geti haft skaðleg áhrif á börn. Auðvelt að detta niður í kanínuholur „Foreldrar vita alveg af hættunni en það er svo auðvelt að detta niður í kanínuholur þar sem börnin eru kannski að horfa á saklaust efni og svo ýta á næsta myndband og svo framvegis og áður en þau vita af eru þau komin í svona gervigreindarmyndbönd sem eru oft bara voðalega óhugnanleg og kannski ekki með boðskap sem við viljum að börnin okkar verði vitni að,“ segir Sigurjón Már. Þá sé oft óviðeigandi auglýsingum beint að börnum á þessum miðlum. „Þá sérstaklega að strákum eru það veðmálaauglýsingar og stúlkur fá oft með húðmeðferðir eða einhvers konar megrunarmeðferðir,“ segir Sigurjón Már og bendir á að Ísland sé í öðru sæti í Evrópu varðandi unglinga sem stunda veðmál. Skjáskot af auglýsingu á YouTube sem er beint að ungum stúlkum. Hugarfarsbreyting að verða varðandi samfélagsmiðla og börn Ástralía varð á dögunum fyrsta ríki í heimi sem bannar samfélagsmiðla fyrir börn, sem þýðir að yngri en sextán ára mega ekki að vera með aðgang að miðlum eins og Facebook, Instagram, TikTok, Snapchat, YouTube og fleirum. Sigurjón Már fagnar framtakinu og vonar að Ísland fari sömu leið. „Mér finnst að börn eigi ekki heima á samfélagsmiðlum og bara vona að við Íslendingar stigum þetta skref líka.“ En er raunhæft að banna börnum að nota þessa miðla? „ Það er alveg erfitt í útfærslu og börn eru snillingar í að finna leiðir fram hjá síum. En já, mér finnst það alveg raunhæft,“ segir Sigurjón Már. „Það er hugarfarsbreyting sem er að verða í samfélaginu okkar - og ekki bara okkar heldur úti um allan heim - og ég tel að eftir tíu ár að þá eigum við eftir að hugsa til baka og velta fyrir okkur bara hvað vorum við að spá að hleypa börnunum okkar svona ungum inn á þessa miðla.“ „Börn eiga aldrei að þurfa að vera ein í erfiðum aðstæðum og það á líka við um netið,“ segir Sigurjón Már.