Í dag var fyrsti almenni opnunardagur verslana eftir jól og margir fóru í búðir - sumir til að skila jólagjöfum sem henta ekki af ýmsum ástæðum, aðrir til að kaupa það sem vantaði undir tréð. Verslunum er í sjálfsvald sett hvort og hvernig þær taka við seldri vöru. Útsölur eru byrjaðar og skilareglur eru mismunandi milli búða. Stóri skila- og skiptadagurinn er í dag og annríki í mörgum verslunum þar sem fólk freistar þess að skila jólagjöfum. „Langflestar verslanir vilja gera vel við viðskiptavini sína,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Í Kringlunni voru margir í þeim erindum að skipta eða skila ýmsu sem þeir höfðu fengið í jólagjöf. Algeng ástæða var að fatnaður væri ekki í réttri stærð. Verslanir ráða sjálfar skilarétti Engar reglur eða lög eru um skilarétt á ógallaðri vöru. Samkvæmt viðmiðum Neytendasamtakanna er skilaréttur í 14 daga eftir kaup, en hver verslun getur sett sér eigin skilareglur. Spurður hvort fólk þurfi að flýta sér að skila jólagjöfum áður en útsölur hefjast segist Breki mæla með því. „Því fyrr, því betra að koma þessu áfram, að það gleymist ekki uppi í skáp og maður man ekki eftir því fyrr en næstu jól.“ Og hann stingur upp á nýju heiti þessara daga - þ.e. þegar margir eru að skila og skipta vörum og notar til þess hugtak úr málfræði sem að öllu jöfnu er notað yfir tíð. „Það má segja að það sé nokkurs konar skildagatíð um þessar mundir.“ Útsölur eru byrjaðar í nokkrum verslunum en þær hefjast flestar 2. janúar. Og sumir byrja fyrr en aðrir – en útsala Elko var opnuð á vefsíðu verslunarinnar á jóladag og síðan hófst hún í verslunum Elko í dag. Spurður hvort einhverjir hafi verslað á jóladag segir Arinbjörn Hauksson, forstöðumaður markaðssviðs Elko, svo vera. „Já, það er alltaf þannig að þegar útsalan virkjast þá hefst útsöluverslunin.“