Auðvelt er að eiga við akstursmæla í bílum með einföldum búnaði. Mikið hefur verið leitað til Félags íslenskra bifreiðaeigenda vegna kílómetragjaldsins, því fólk vill fá að vita hvernig eigi að skrá réttar upplýsingar, og eins hefur borið á því að fólk velti fyrir sér hvernig hægt sé að svindla á kerfinu. FÍB varar þó við því að fólk grípi til slíkra aðgerða til að lækka möguleg útgjöld, slíkt flokkist undir skjalafals og skattalagabrot og við því eru ströng viðurlög. Björn Kristjánsson, tækniráðgjafi hjá FÍB, segir að til séu margar leiðir til að hafa áhrif á kílómetramæla í bílum. „Okkur hefur verið bent á að það er bæði hægt að frysta mælana, stöðva talningu á þeim með tiltölulega auðveldum búnaði, og síðan er líka hægt að skrúfa mæla til baka og jafnvel taka þá úr sambandi,“ segir Björn. „Þetta er auðvitað misjafnt á milli bílaframleiðenda og þetta verður erfiðara eftir því sem bílar eru nýrri.“ Auðvelt er að eiga við akstursmæla í bílum með einföldum búnaði. Félag íslenskra bifreiðaeigenda varar þó við því að fólk grípi til slíkra aðgerða til að lækka útgjöld vegna kílómetragjaldsins. Þarf að skrá kílómetrastöðu fyrir 20. janúar Kílómetragjaldið nær til allra ökutækja, er lægst 6,95 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra og fer svo stighækkandi eftir þyngd bifreiða. Fjárhæðin byggist á áætlun um meðalakstur, sem unnin er út frá skráningum á kílómetrastöðu sem skila þarf inn í síðasta lagi 20. janúar á mínum síðum á vefsvæðinu island.is. Hægt er að skrá akstur mánaðarlega, en einnig dugar að reiða sig á árlega skráningu þegar farið er með bíl í skoðun og er gjaldið þá áætlað. Mjög erfitt er fyrir skoðunarstöðvar að sjá hvort átt hefur verið við kílómetramæla og starfsmönnum ber einungis skylda til að skrá þá tölu sem sést í mælaborði. „Ef þú ekur 20.000 km á ári, og þú setur mælinn í 5.000 km, þá er kannski engin leið fyrir skoðunarmann að átta sig á því hvað þú ert að aka mikið. En ef upp kemst þá verður það skráð í gögn bílsins og það er eitthvað sem enginn vill hafa á vottorði bílsins, að það sé búið að eiga við hraðamælinn í bílnum,“ segir Björn. Ströng viðurlög ef upp kemst um svindl Björn bendir á að kílómetrastaðan sé ekki skráð í eina tölvu í bílnum heldur í nokkrar, þannig að ef átt er við mælingu er líklegt að misræmið komist upp. Eins er kílómetrastaða skráð á fleiri stöðum en við árlega skoðun bíla, til að mynda þegar farið er með bifreiðir í þjónustuskoðun og við kaup og sölu, og þar gætu ummerki um aukabúnað og misvísandi skráningar vakið athygli. Tæpt ár er liðið síðan eigendum rafbíla var gert að skrá ekna kílómetra og greiða kílómetragjald, og FÍB hefur ekki fengið neinar ábendingar um að svindlað hafi verið á því kerfi. Björn bendir á að fólk sé ekki að spara sér stórar fjárhæðir með því að eiga við akstursmæla í bílum og ítrekar að viðurlög geti verið um 500 þúsund króna sekt, eða allt að tífaldur áætlaður akstur. „En ef fólk hefur mikinn áhuga á þessu, þá er þetta bara hreint og beint skjalafals og skattalagabrot, að eiga við mælinn. Við mælum ekki með því að fólk fari í þessar æfingar,“ segir Björn.