Bær á Vesturbakkanum í herkví og íbúar sæta útgöngubanni

Ísraelsher hefur fyrirskipað að íbúar bæjarins Qabatiya á Vesturbakkanum skuli sæta útgöngubanni. Bærinn er jafnframt í herkví eftir að maður þaðan myrti tvær manneskjur í Ísrael á föstudag. Varnarmálaráðherrann Israel Katz tilkynnti þetta og sagði markmið hersins að uppræta alla palestínska hryðjuverkamenn í bænum. Palestínska fréttastofan Wafa segir að Ísraelsher hafi yfirtekið skóla í bænum, þar sem fólki var haldið og það yfirheyrt. Jafnframt hafi herinn lokað öllum leiðum að bænum, yfirheyrt fólk heima hjá sér og gert húsleitir. Tæplega hálffertugur Palestínumaður sem hafði starfað með ólögmætum hætti í Ísrael ók bifreið vinnuveitanda síns á 68 ára karlmann og stakk 18 ára stúlku til bana, að sögn ísraelskra lögregluyfirvalda. Nokkrum klukkustundum síðar gerðu Ísraelsher og leyniþjónustumenn Shin Bet húsleit á heimili mannsins og yfirheyrðu fólk. Íbúinn Muhannad Zakarneh segir í samtali við AFP-fréttaveituna hermenn hefðu handtekið hann án útskýringa og haldið honum handjárnuðum klukkustundum saman. Honum hafi ekki verið svarað þegar hann spurði hvert sakarefnið væri. AFP-fréttaveitan hefur tekið saman tölur frá yfirvöldum sem sýna að minnst 38 hafi fallið fyrir hendi Palestínumanna innan Ísraels frá upphafi stríðsins á Gaza, þar af tveir útlendingar. Á sama tíma hefur ofbeldi færst í aukana á Vesturbakkanum sem Ísrael hernam árið 1967. Ísraelskar tölur sýna að 44 þarlendir hermenn og almennir borgarar hafi verið drepnir í árásum Palestínumanna eða við aðgerðir Ísraelshers á Vesturbakkanum. Tölur frá heilbrigðisráðuneyti Palestínu segja að ísraelskir hermenn og landtökufólk hafi drepið á annað þúsund Palestínumenn á Vesturbakkanum. Einhverjir vígamenn eru sagðir þar á meðal en jafnframt tugir eða hundruð almennra borgara.