Nýir YouTube-notendur mega vænta þess að um þriðjungur af stuttum myndskeiðum sem þeir skoða á vefsíðunni séu gervigreindarsull (e. AI slop) eða heilafúi (e. brain rot). Þetta er niðurstaða rannsóknar vefsíðunnar Kapwing á gervigreindarefni á YouTube. Kapwing er þjónusta til að búa til myndefni með hjálp gervigreindar. Aðstandendur vefsíðunnar tóku nýverið saman gögn um vinsælar YouTube-rásir sem birta myndskeið sem flokkast undir gervigreindarsull og heilafúa. Rannsóknin var ekki framkvæmd samkvæmt fræðilegum viðmiðum en varpar engu að síður áhugaverðu ljósi á uppgang lággæða myndefnis. Meðal helstu niðurstaðna rannsóknar Kapwing er að stærstu gervigreindarsullsrásirnar á YouTube eru með margar milljónir áskrifenda. Stærsta rásin er frá Bandaríkjunum og heitir Cuentos Facinantes, en efnið á henni er á spænsku. Hún hefur rétt tæpa sex milljón áskrifendur. Rásin Bandar Apna Dost, sem er indversk, er með flest áhorf af þeim sem rannsóknin náði til, eða yfir tvo milljarða áhorfa. Kapwing áætlar að árlegar tekjur Bandar Apna Dost séu um 4,25 milljónir bandaríkjadala. Suðurkóreska rásin Three Minutes Wisdom nær einnig yfir tvo milljarða áhorfa en gervigreindarsull er afar fyrirferðarmikið í því landi. Alls eru áhorf í Suður-Kóreu, á þær rásir sem rannsóknin náði til og einkennast af gervigreindarsulli, um 8,5 milljarðar. Til samanburðar situr Pakistan í öðru sæti með um 5,3 milljarða slíkra áhorfa. Hvaða sull er þetta? Gervigreindarsull vísar til myndefnis sem er framleitt með hjálp spunagreindar (e. generative AI) og einkennist af metnaðar- og merkingarleysi og er af lágum gæðum. Slíku myndefni er dælt á veraldarvefinn í miklu magni, ýmist í því skyni að safna áhorfum eða í því skyni að hafa áhrif á skoðanir fólks. Ekki allt gervigreindarefni er gervigreindarsull en gervigreindarsull má almennt lýsa sem heilafúa. Heilafúi lýsir bæði efni, sem einkennist af handahófskenndum eiginleikum, og hegðun þeirra sem neyta efnisins og verja svo miklum tíma á netinu að heili þeirra er farinn að rotna, líkt og fréttamaður Vísis orðaði það fyrr á árinu . „Aðaltilgangurinn með gervigreindarsulli og heilafúaefni er að fanga athygli þína, og efni sem þetta verður sífellt erfiðara að forðast,“ segir á vef Kapwing. Myndskeiðin í rannsókninni einkennast af efni sem tengist trúarbrögðum, íþróttum, dýra- og barnaefni. Þriðjungur myndskeiða heilafúi Til þess að rannsaka viðfangsefnið báru rannsakendur kennsl á þær YouTube-rásir sem eru á lista yfir þær hundrað vinsælustu í hverju landi fyrir sig og framleiða efni sem einkennist af gervigreindarsulli og heilafúa. Stuðst var við gögn Socialblade.com til að rýna í áhorfs- og áskrifendatölur og áætlaðar tekjur þessara rása. Því næst bjuggu rannsakendur til nýjan YouTube-aðgang og könnuðu hve mikið af fyrstu 500 myndskeiðunum sem komu upp í YouTube Shorts, þar sem aðeins er að finna stutt myndskeið, voru gervigreindarsull eða heilafúi. Fyrstu sextán myndskeiðin sem hinn nýi aðgangur sá á YouTube shorts voru eðlileg myndskeið, en eftir það fór að bera töluvert á sulli og fúa. Niðurstaða rannsóknarinnar er að 33%, eða 165 myndskeið af 500, voru heilafúi. 104 þessara myndskeiða, eða 21% af fyrstu 500, voru gervigreindarsull.