Masoud Pezeshkian Íransforseti segir Bandaríkin, Ísrael og Evrópu heyja allsherjarstríð gegn heimalandi hans. Forsetinn lét þessi orð falla í viðtali sem birtist á vefsíðu æðstaklerksins Ali Khamenei hálfu ári eftir loftárásir Ísraela og Bandaríkjanna á Íran. Frakkar, Bretar og Þjóðverjar stóðu að baki endurupptöku viðskiptaþvingana Sameinuðu þjóðanna gegn Íran í september vegna kjarnorkuáætlunar landsins. Pezeshkian kveðst telja að ætlunin sé að knésetja Íran og sagði styrjöldina nú mun verra en fyrsta Persaflóastríðið við Írak. „Þegar betur er að gáð er þetta stríð mun flóknara og erfiðara,“ sagði Pezeshkian. Hundruð þúsunda týndu lífi í stríði Íraks og Írans sem stóð frá 1980 til 1988. Bandaríkin og samherjar þeirra saka Írani um að ætla að koma sér upp kjarnorkuvopnum, sem þarlend stjórnvöld þvertaka fyrir. Ísraelsher gerði óvænta árás á kjarnorku- og hernaðarinnviði Írans auk borgaralegra svæða í júní og Bandaríkin gerðu þrjár árásir á kjarnorkuver í landinu. Írönsk yfirvöld segja atlögurnar hafa kostað yfir þúsund mannslíf, þá 12 daga sem stríðið varði. Þátttaka Bandaríkjanna varð til þess að stöðva samningaviðræður um kjarnorkuáætlun Írana sem hófust í apríl. Donald Trump hefur endurvakið harða stefnu sína gegn Íran með efnahagsaðgerðum sem ætlað er að lama landið og þurrka upp ágóða þess af olíusölu um heim allan.