Evrópusambandið hvetur til virðingar fyrir fullveldisrétti Sómalíu eftir að Ísraelar viðurkenndu Sómalíland

Evrópusambandið vill að fullveldisréttur Sómalíu verði virtur eftir að ísraelsk stjórnvöld viðurkenndu fullveldi héraðsins Sómalílands. Ekkert annað ríki hefur gert það. Anouar El Anouni, talsmaður utanríkismáladeildar Evrópusambandsins, segir brýnt að virða fullveldi og landsréttindi Sómalíu í samræmi við stjórnarskrá landsins og sáttmála Afríkusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Það sé grundvöllur friðar og stöðugleika á gjörvöllu Horni Afríku, skaganum sem myndar suðurströnd Adenflóa. Evrópusambandið hvetur leiðtoga Sómalílands og Sómalíu til viðræðna svo leysa megi langvinnan ágreining þeirra á milli. Stjórnvöld í Sómalíu kölluðu viðurkenningu Ísraels á Sómalílandi vísvitandi atlögu að fullveldi sínu auk þess sem Egyptar og Tyrkir fordæmdu hana. Það gerðu einnig samtök ríkja við Persaflóa og samtök 57 ríkja um íslamska samvinnu, sem hafa aðsetur í Sádi Arabíu. Héraðið lýsti einhliða yfir sjálfstæði árið 1991 og sagði sig úr lögum við Sómalíu. Það hefur síðan verið einangrað diplómatískt en hefur eigin gjaldmiðil, her og gefur út sín eigin vegabréf.