Maður grunaður um hnífaárás í jarðlestarkerfi Parísar vistaður á geðsjúkrahúsi

Hálfþrítugum karlmanni sem grunaður er um hnífaárás á þrjár konur í jarðlestakerfi Parísar hefur verið sleppt úr gæsluvarðhaldi og fluttur á geðsjúkrahús. Saksóknarar sögðu í gær ekki við hæfi að vista manninn í fangelsi í ljósi andlegrar heilsu hans. Konurnar hlutu ekki alvarlega áverka eftir að maðurinn réðst á þær á þremur lestarstöðvum í miðborg Parísar. Lögreglumenn fundu manninn þremur klukkustundum eftir seinustu atlöguna í Val d'Oise hverfinu, með því að fylgja eftir ferðum hans gegnum eftirlitsmyndavélar og rakningu á síma hans. Maðurinn er ættaður frá Malí og hafði verið undir eftirliti frá því honum var sleppt úr fangelsi í júlí vegna dóms fyrir kynferðisbrot og grófan þjófnað. Þá bar honum að yfirgefa Frakkland en það tókst ekki því hann skorti ferðaskilríki. Því hafi honum verið sleppt níutíu dögum síðar, lögum samkvæmt. Innanríkisráðherrann Laurent Nunez kvaðst harma það og sagði markmið stjórnvalda að koma dæmdum útlendingum hratt úr landi. Ráðherrann hafði í liðinni viku hvatt háttsetta embættismenn til að tryggja sérstaka árverkni lögreglu yfir jól og áramót. Það ætti sérstaklega við um öryggi í almenningssamgöngum. Ráðherrann sagði mikla hættu á hryðjuverkaárásum og almennri upplausn.