Níu manns eru í haldi lögreglu á Ítalíu fyrir að safna alls sjö milljónum evra til stuðnings Hamas seinustu tvö ár undir yfirskyni fjársöfnunar fyrir stríðshrjáða Palestínumenn. Í frétt BBC segir að þangað hafi peningarnir ekki borist heldur til Hamas gegnum flókið fjáröflunarkerfi, með höfuðstöðvar í Genúa og útibú í Mílanó. Hin handteknu eru grunuð um að hafa látið fjármunina renna sérstaklega til hryðjuverkastarfsemi á vegum Hamas. Í yfirlýsingu lögreglu segir að þau hafi tekið við framlögum ætluðum almenningi á Gaza en á daginn hefði komið að yfir sjötíu af hundraði fjárins runnu til hernaðarvængs Hamas, fjölskyldna sjálfsmorðssprengjumanna og fólks í haldi fyrir hryðjuverkastarfsemi. Sameiginleg aðgerð fjársvika- og hryðjuverkadeilda lögreglunnar Handtökurnar voru hluti sameiginlegra aðgerða fjársvikadeildar og hryðjuverkadeildar ríkislögreglunnar, sem hófust eftir hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael 7. október 2023. Lögregla kveðst hafa greint fjölda tilkynninga um „grunsamlegar fjármagnsfærslur“ sem tengdust einhverjum þeirra sem grunaðir eru um skipulagningu árásarinnar. Samhliða handtökunum voru eignir gerðar upptækar að andvirði meira en átta milljóna evra. Innanríkisráðherrann Matteo Piantedosi segir Mohammad Hannoun, forseta Samtaka Palestínumanna á Ítalíu, meðal hinna handteknu. Hann hefur sagt allar ásakanir um að hann fjármagni starfsemi Hamas vera lygi. Ráðherrann þakkaði lögreglu fyrir uppljóstrunina í færslu á X en áréttaði jafnframt að allir væru saklausir uns sekt þeirra sannaðist.