Undir lok 19. aldar búa tveir menn beggja vegna heiðar í Suður-Þingeyjarsýslu. Þeir eru forvitnir um heiminn, hafa einlægan áhuga á bókmenntum og hugsjónir og drauma um menntun, framfarir og betra samfélag. Þeir eru perluvinir og styðja hvor annan í baráttu lífsins, ósammála á stundum en oft sammála. Tónlistin er meðal þess sem er eldsneytið í vináttu þeirra. Í þættinum Þótt oss skilji hábrýnd heiðin rekur Trausti Dagsson tæplega 40 ára vináttu þessara tveggja manna eins og hún birtist í bréfum þeirra á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. Mennirnir voru Sigtryggur Helgason og Benedikt Jónsson, kenndur við Auðnir. Leiðir þeirra lágu á endanum í ólíkar áttir en þráðurinn virðist aldrei hafa slitnað. 32 bréf frá 1879-1918 varðveitt Benedikt var tíu árum eldri en Sigtryggur og sjálfsagt hafa þeir þekkst eða alla vega vitað hvor af öðrum frá því að Sigtryggur var barn enda var ekki svo langt á milli bæja þótt yfir heiði væri að fara. Sigtryggur bjó á æskuheimili sínu að Hallbjarnarstöðum í Reykjadal og Benedikt var bóndi á Auðnum. Benedikt var menningarfrömuður í sýslunni, hreppstjóri og einn af stofnendum kaupfélags Þingeyinga og bókasafns Suður-Þingeyinga. Sigtryggur var alla tíð bóndi á Hallbjarnarstöðum og vann að ýmsu tengdu kaupfélaginu í sinni sveit. Hann var barnakennari í nágrenninu og átti þátt í stofnun söngfélags og lestrarfélags í Reykjadal. Hann spilaði á fiðlu sem hann fékk upphaflega hjá Benedikt og breiddi út fagnaðarerindi tónlistarinnar með því að kenna öðrum. Ekki er vitað hvernig þeir kynntust en í dagbókum Sigtryggs á árunum 1881-1917, sem til eru, er oft minnst á Benedikt og samgang þeirra. Stundum hittust þeir nokkrum sinnum í mánuði en stundum sjaldan. Alls hafa 32 bréf þeirra á milli varðveist sem segja sögu sem spannar árin 1879-1918. „Eg álít að þú sért einn af þeim fáu sem ég get talið vini mína núna“ Þeir vinirnir skrifuðust gjarnan á um tónlist, útsetningar og almennar hugleiðingar. Ljóst er að hvorum þeirra var hlýtt til hins og í einu bréfi til Sigtryggs árið 1888 ræðir Benedikt um vináttu þeirra: En ég skal segja þér eitt, fyrst þú fórst að minnast á þetta: Eg álít að þú sért einn af þeim fáu sem ég get talið vini mína núna. – Til vináttu útheimtist andlegur skyldleiki, og nokkurt jafnræði, þó margt ólíkt geti komist þar að. Vinátta án „sympathi“ er ómöguleg eins og ást, sem án þess er girnd og ekkert annað. Og ég held að við – þú og ég – höfum symphatis er að frá því við fyrst kynntumst. – Að kynnast mörgum er fróðlegt og menntandi, og vart er sá maður að mér þyki ekki vert að kynnast honum. Hvort úr því verður vinátta er komið undir andlegum skyldleik. – Eg þekki ekkert afl í heiminum sem eins mikið hindrar almenna vináttu og félagsskap eins og nærsýnis-eigingirni, og hana hefi ég oftast séð verða mönnum að vinskilum. En nú er blaðið þrotið, og tími til að sofa, augun lúin og hugurinn sljór. – Já ég er kominn að því að sljófgast, ég eldist illa. Þetta er hypechondisk grilla. Góða nótt vinur! Þinn Benedikt Jónsson Nokkrar eyður eru í bréfaskiptum þeirra félaga, jafnvel nokkur ár í senn. Líklegt er þó að þeir hafi haldið áfram samskiptum. Í janúar 1899 sendir Benedikt vini sínum bréf þar sem stendur: Vinur! Ég hafði gert mér vissa von um að hitta þig á aðalfundi K.P. en það brást eins og fleiri vonir, og saknaði ég þín úr hópnum, og það held ég fleiri hafi gert. Ég er nú kominn á vanafestu-aldurinn, og fer um mig hrollur er samferðarmennirnir hverfa hvort heldur lifandi eða dauðir. Ég ætla ekki að ásaka þig, þótt ofarlega sé það í huganum. Ég mundi þó máske særa þig þar er síst skyldi. En hitt hirði ég ekki um að dylja, að ég tel það ill atvik er einangra þig, og spilla því gagni sem málefni og hugsjónir áttu að hafa af þér, og eiga raunar heimtingu á af hverjum þegni. Þarna virðist eitthvað hafa komið upp á hjá Sigtryggi, einhver ill atvik sem einangra hann og gerinilegt er að Benedikt er umhugað um vin sinn. Í febrúar 1899 skrifar Sigtryggur til baka en það bréf er týnt, þó er vitnað í það í dagbók Sigtryggs. Þó svo að bréfið sé týnt stendur í dagbók Sigtryggs að hann hafi opnað sig við Benedikt vin sinn um líðan sína, aðstæður sem valda honum hugarangri. Fjórum dögum seinna svarar Benedikt: Vinur! Allra kærustu þökk fyrir bréfið og nóturnar. Þú trúir því varla hvað mér þótti vænt um bréfið. Og hvers vegna? Af því ég fann að minn gamli vinur kom þarna dulargervislaus til mín, einlægur og blátt áfram, eins og vinur til vinar. Að öðru leyti var efni bréfsins mér als ekkert gleðiefni. En þetta var mergurinn málsins fyrir mér: og ég þakka þér aftur þúsundfalt fyrir hreinskilni þína. Ég veit nú betur og réttar hvernig þér líður, og á síður á hættu að misskilja þig. Því einnig á milli línanna les ég ýmislegt. – Í huganum tók ég ekki hart á því, að þú sleptir við deildarstjórn en að hinu get ég ekki gert, að ég saknaði þín og svo eru öll slík atvik svo nöturleg: þau minna mann svo átakanlega á hverfleika, elli, hrörnun og – stundum á afturför. Að þú flytjir burtu úr sveitinni, á ég raunar líka erfitt með að sætta mig við. En gæti þér, fyrir það liðið betur, þá er ekkert um það að tala. Gæti ég samt hindrað það á þann hátt, sem nokkuð bætti úr því sem er, þá mundi ég gera það. Vinátta Sigtryggs og Benedikts hélt áfram og farið er yfir söguna í þættinum Þótt oss skilji hábrýnd heiðin í spilaranum hér fyrir neðan. „Eg álít að þú sért einn af þeim fáu sem ég get talið vini mína núna,“ skrifaði Benedikt Jónsson í bréfi til Sigtryggs Helgasonar árið 1888. Farið er yfir tæplega 40 ára vináttu þeirra eins og hún birtist í bréfaskiptum þeirra.