Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti kveðst munu funda með leiðtogum Evrópu eftir að hann hittir Donald Trump Bandaríkjaforseta síðar í dag. Hann kveðst vonast eftir uppbyggilegum samræðum. Fundurinn verður haldinn í Mar-a-Lago, setri Donalds Trump í Flórída, og hefst klukkan 18:00 að íslenskum tíma. Tilgangur fundarins er að kynna tuttugu liða tillögu Úkraínumanna að friðaráætlun. Hún er mjög breytt frá upphaflegum drögum sem byggðu á niðurstöðum bandarískra og rússneskra embættismanna. Meðal annars er lagt til að víglínan verði fryst við núverandi staðsetningu og að Rússar skuldbindi sig til að ráðast ekki aftur á Úkraínu. Landsyfirráð og framtíð Zaporizhzhia-kjarnorkuversins eru talin helstu ásteitingarsteinarnir. Volodymyr Zelensky kallar jafnframt eftir auknum stuðningi samherja Úkraínu til að hindra Rússa í að draga stríðið á langinn. Forsetarnir hafa ekki hist síðan í október þegar Trump tilkynnti Zelensky að Úkraínuher fengi ekki langdrægar Tomahawk-eldflaugar. Zelensky kvaðst í gær vonast til að fundur hans með Trump yrði uppbyggilegur. Hins vegar hefðu Rússar sýnt sitt rétta andlit með umfangsmiklum árásum á Kyiv í fyrrinótt. Hann kvað augljóst að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefði engan áhuga á friði. Utanríkisráðherra Rússlands segir að evrópskir hermenn verði lögleg skotmörk Rússlandshers verði þeir sendir til liðsinnis Úkraínumönnum. Sergei Lavrov lét þessi orð falla í samtali við rússneska ríkismiðilinn Tass í dag, skömmu fyrir fund Zelenskys og Trumps. Lavrov gagnrýndi evrópska stjórnmálamenn harðlega. Án frekari rökstuðnings sakaði utanríkisráðherrann um að vera knúnir eigin metorðagirnd í samskiptum sínum við stjórnvöld í Kyiv án þess að taka tillit til vilja úkraínsku þjóðarinnar og sinna eigin landsmanna.