Karlalandslið Íslands í handbolta er greinilega vinsælasta íþróttalið íslensku þjóðarinnar. Í það minnsta safnast landsmenn saman og horfa á leiki liðsins á stórmótum í janúar. Árið í ár var engin undantekning frá því enda eru allir sex leikir Íslands á HM í sex efstu sætum listans í ár yfir þær íþróttaútsendingar sem fengu mest áhorf á íslenskum sjónvarpsstöðvum. Í sjöunda sæti kemur svo annar leikur Íslands á Evrópumóti kvennalandsliða í fótbolta í sumar, bein útsending þar sem kjörinu á íþróttamanni ársins 2024 var lýst er í áttunda sæti, leikur Úkraínu og Íslands í undankeppni HM karla í fótbolta sem sýndur var hjá Sýn Sport er í níunda sæti og í tíunda sæti kemur svo úrslitaleikur HM karla í handbolta í janúar. Ögn lægri tölur en í fyrra Sá íþróttaviðburður sem fékk mest áhorf í fyrra var leikur Íslands og Þýskalands á EM karla í handbolta en hann fékk 50,8% meðaláhorf og 62,8% uppsafnað áhorf. Áhorfið á þann leik sem flestir horfðu á í ár er örlítið lægra. Uppsafnað áhorf þýðir þá sem horfðu í a.m.k. fimm mínútur samfleytt. Þetta er byggt á tölum úr rafrænum ljósvakamælingum Gallup. Til samanburðar má svo nefna það að mest áhorf á íþróttaviðburð sem mælst hefur í íslensku sjónvarpi frá því að rafrænar mælingar Gallup hófust, var á leik Íslands og Argentínu á HM karla í fótbolta 2018. Þar var 60% áhorf og 67% uppsafnað. Aðrar leiðir voru notaðar til að mæla sjónvarpsáhorf áður en rafrænar mælingar Gallup komu til. Það er því erfiðara að fullyrða hvaða íþróttaútsending hefur fengið mest áhorf í íslensku sjónvarpi frá upphafi.