Brigitte Bardot látin

Franska kvikmyndagoðsögnin Brigitte Bardot er látin. Hún var 91 árs. Brigitte Bardot-sjóðurinn tilkynnti um andlát hennar í morgun. Bardot skaust upp á stjörnuhimininn fyrir leik sinn í kvikmyndinni And God Created Woman árið 1956 og varð alþjóðlegt kyntákn. Hún lék í rúmlega 50 myndum en snemma á áttunda áratug síðustu aldar tilkynnti hún að hún væri hætt að leika. Hún varð mikill dýraverndunarsinni og tileinkaði líf sitt dýravelferð. Var aldrei undirbúin fyrir frægðina Bardot fæddist árið 1934 í París í Frakklandi. Hún lærði ballet og lærði við Conservatoire de Paris. Hún hóf fyrirsætustörf á sama tíma og birtist meðal annars á forsíðu tískutímaritsins Elle árið 1950. Í kjölfar fyrirsætustarfanna fór hún að leika í kvikmyndum. Hún lék í fjölda franskra mynda og um miðjan sjöunda áratuginn fór hún að leika í myndum í Hollywood, þar á meðal Viva Maria! og Shalako, vestra með Sean Connery. Samhliða kvikmyndaferlinum var Bardot einnig söngkona. En eftir því sem velgengi hennar óx urðu fylgikvillar fræðgarinnar meira íþyngjandi. Í viðtali við breska miðilinn The Guardian árið 1996 sagði hún brjálæðið sem umkringdi hana alltaf óraunverulegt. „Ég var aldrei alveg undirbúin fyrir stjörnulífið.“ Hún hætti að leika árið 1973, aðeins 39 ára, og einbeitti sér að dýravernd eftir það. Hún stofnaði Brigitte Bardot Foundation árið 1986. Mótmælti illri meðferð dýra Bardot var ötull talsmaður velferðar dýra og sendi meðal annars mörgum þjóðarleiðtogum bréf þar sem hún mótmælti meðferð dýra. Hún sendi til að mynda stjórnvöldum í Rúmeníu harðort bréf vegna drápa á hundum í landinu, hún mótmælti grindhvaladrápum í Færeyjum og kattadrápum í Ástralíu. Hún var einnig mjög mótfallin drápum á dýrum í trúarlegum tilgangi. Bardot var lengi stuðningsmaður Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi og sagðist styðja skoðanir Jean-Marie Le Pen, föður Marine Le Pen, um innflytjendur og ógnvekjandi fjölgun þeirra í landinu. Í bréfi til Nicolas Sarkozy árið 2006, þegar hann var innanríkisráðherra, sagði Bardot að múslímar í Frakklandi væru að eyðileggja landið með gjörðum sínum. Bardot var gift fjórum sinnum. Hún giftist franska leikstjóranum Roger Vadim árið 1952 og skildi við hann 1957. Hún var gift franska leikaranum Jaques Charrier frá 1959 til 1962, þýska auðkýfingnum Gunter Sachs frá 1966 til 1966 og Bernard d'Ormale sem hún giftist 1992. Hún átti einn son.