Borgarstjóraefnin líklega kynnt í næsta mánuði

Það styttist í að línur skýrist um hverjir leiði lista flokkanna í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar 26. maí og þar með hver verði borgarstjóraefni. Búast má við talsverðum breytingum á listum. Bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur halda prófkjör 24. janúar - hjá Sjálfstæðisflokki verður leiðtogaprófkjör og síðan verður stillt upp í önnur sæti listans. Hildur Björnsdóttir núverandi oddviti hefur ein gefið kost á sér að leiða listann. Beðið eftir Guðlaugi Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi útilokar ekki að gefa kost á sér í oddvitasætið. Það gerði hún fyrir fjórum árum, en bíður nú eftir ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, alþingismanns og fyrrverandi ráðherra, sem hefur legið undir feldi síðustu vikur. Í prófkjöri Samfylkingarinnar verður niðurstaðan bindandi fyrir sex efstu sætin - Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri hefur ein lýst því yfir að vilja leiða listann, en Pétur Marteinsson rekstrarstjóri og fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu íhugar að gefa kost á sér. Frestur til að skila inn framboði hjá Samfylkingunni rennur út 3. janúar, en 6. janúar hjá Sjálfstæðisflokki. Viðreisn heldur leiðtogaprófkjör 31. janúar. Þar hafa tveir lýst yfir framboði; Róbert Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Grindavík, og Aðalsteinn Leifsson, varaþingmaður Viðreisnar og aðstoðarmaður utanríkisráðherra, sem var áður ríkissáttasemjari. Tilkynna þarf framboð í síðasta lagi 16. janúar. Flokkur fólksins stillir líklega upp Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun hjá Flokki fólksins um hvernig verður staðið að röðun á lista að sögn Heimis Más Péturssonar, formanns kjördæmaráðs flokksins í borginni. Líklega verður uppstilling og óvíst er hvenær skipan lista liggur fyrir. Helga Þórðardóttir, sem nú leiðir lista Flokks fólksins í borginni, gefur ekki kost á sér í oddvitasæti, en útilokar ekki að taka sæti neðar á lista. Ekkert staðfest hjá Vori til vinstri Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins boðaði fyrr í þessum mánuði nýtt stjórnmálaafl - Vor til vinstri og kallaði eftir félagshyggjufólki til að ganga til liðs við framboðið. Hún segir að samstarf við aðra flokka hafi ekki verið staðfest, en framboðið verði kynnt snemma í janúar. Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna segir ekki hafa verið ákveðið hvort flokkurinn bjóði fram undir eigin nafni eða gangi til liðs við Vor til vinstri. Hún segir engar viðræður hafa verið við Sönnu um sameiginlegt framboð. Miðflokkurinn kynnir listann um miðjan janúar Miðflokkurinn náði ekki inn borgarfulltrúa í síðustu borgarstjórnarkosningum 2022. Flokkurinn stillir upp á lista sem verður kynntur um miðjan janúar. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur borgarstjóraefni flokksins áður verið kjörinn fulltrúi - en ekki fengust upplýsingar um fyrir hvaða flokk. Líklega verður prófkjör hjá Pírötum og verður sú ákvörðun kynnt upp úr áramótum, að sögn Alexöndru Briem borgarfulltrúa Pírata. Hún segir að Píratar hafi rætt sameiginlegt framboð bæði við VG og Vor til vinstri. Framsókn velur fjóra efstu Framsókn heldur tvöfalt kjördæmisþing 7. febrúar þar sem kosið verður um fjögur efstu sætin. Einar Þorsteinsson oddviti flokksins vill leiða listann áfram.