Getur munað milljónum á bílaverði vegna breytinga á vörugjaldi

Átta milljón króna fólksbíll sem gengur fyrir bensíni gæti kostað um 9,6 milljónir á næsta ári. Breytingar á vörugjaldi bíla taka gildi þann 1. janúar og gert er ráð fyrir um 20% hækkun á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. „Það er sem sagt verið að hækka vörugjöld verulega á alla bíla sem að einhverju leyti nota jarðefnaeldsneyti,“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. „Í sumum tilvikum eru bílarnir kannski að fara að hækka um rúmlega 20% eða eitthvað þess háttar. Hugsaðu þér, með svona huggulegan bíl, þá getur það náttúrulega munað milljónum.“ Sala dregst yfirleitt saman síðla í desember en jókst í ár Nýjustu nýskráningatölur sambandsins, sem komu út í gær, sýna að sala á bílum það sem af er desember hafi verið óvenju góð. Jafnan dragist sala á bílum saman um miðjan desember, en í ár sé það ekki raunin. „Desember hefur alltaf verið ágætur mánuður en tölurnar eru nokkuð háar og ég heyri það líka á bílgreininni að það hefur verið mikil traffík í umboð að skoða bíla og þess háttar.“ Benedikt segir að traffíkin hafi vanalega minnkað þegar líða fer á desember en í ár hafi henni ekki linnt. Hefur minni áhrif á rafmagnsbíla Hækkun á vörugjaldi mun ekki aðeins ná til bensínbíla heldur munu dísilbílar einnig hækka töluvert, þumalputtareglan sé að venjulegur fólksbíll muni hækka um 20%. Sömuleiðis verða einhverjar breytingar á verði rafmagnsbíla. „Það er annars vegar vegna þess að það hafa verið einhver 5% lágmarksvörugjald sem er lagt á þá í tolli og falla niður. En á móti kemur þá er styrkur, sem ríkið hefur veitt úr Loftslags- og orkusjóði vegna kaupa á rafbílum að lækka.“ Rafbílarnir hafa verið vinsælir hjá almenningi. Benedikt segir að það sjáist á nýskráningartölum Bílgreinasambandsins, því væri skynsamlegt að það fólk sem hyggst kaupa ódýrari rafbíla drífi í því fyrir áramót. „Þessi styrkur, úr Loftslags- og orkusjóði, hann hefur jafnvel getað numið allt upp í, 25 til 30% af bílverðinu. En fellur svo niður um áramót.“