Fornleifafræðingar hafa fundið flak stærsta kaupskips frá miðöldum sem um getur, rétt utan við Kaupmannahöfn. Skipið er svonefndur kuggur og hefur legið í sex aldir á hafsbotni utan við Kaupmannahöfn, allt frá þeim tíma þegar Margrét I var við völd í Danmörku. Skipið, nefnt Svælget 2, var 28 metra langt, 9 metra langt og 6 metra hátt, og talið hafa geta borið um þrjú hundruð tonn. Lengsti kuggur sem fundist hefur hingað til var 24 metrar. Það hefur verið dregið á land til rannsóknar og hefur vakið mikla gleði fornleifafræðinga enda eru hlutar skrokksins einstaklega vel varðveittir. Það er Víkingaskipssafnið í Hróarskeldu sem ber ábyrgð á fornleifarannsóknum í hafinu austan við Danmörku. Kuggurinn verður þar til sýnis eftir langa yfirlegu forvarða en þegar hefur verið opnuð sýning um sjávarfornleifafræði og Svælget 2 í safninu. Sjávarfornleifafræðingurinn Otto Uldum gat ekki hamið gleði sína þegar hann kafaði fyrst niður að skipinu, svo glæsilegt þótti honum það. Skipið er talið hafa verið smíðað í Hollandi árið 1410 og siglt með vörur frá Hollandi, umhverfis Jótland og þaðan til borga við Eystrasalt. Skip af þessu tagi knúðu áfram þróun kaupmennsku í Norður-Evrópu á miðöldum og við hönnun nútímaskipa er horft til þeirra. Um borð hafa meðal annars fundist skór, greiða, pottur og trédiskur sem tilheyrðu áhöfninni. Einnig var eldofn um borð, hlaðinn úr múrsteini, sem Otto Uldum telur benda til að skipverjar hafi fengið heitan mat. Danska ríkisútvarpið hefur fylgst með rannsókninni undanfarin tvö og hálft ár undir forystu sagnfræðifréttamannsins Cecilie Nielsen. Niðurstöðuna má sjá í sjónvarpsþáttaröðinni Leyndardómar hafdjúpanna á DR. Þegar fornleifafræðingar Víkingaskipssafnsins hófu rannsókn veturinn 2021 fundust tvö skip, kuggurinn og hitt var frá 19. öld. Ekki er vitað hvað varð til þess að kuggurinn sökk þarna en siglingar um Eyrarsund voru hættulegar á 15. öld. Til dæmis gátu sjóræningjar setið fyrir skipum. Líklegast þykir að illviðri hafi skollið á þannig að farmurinn hreyfðist til og skipinu hvolfdi og það sökk. Ekkert hefur fundist af farmi skipsins og sérfræðingar telja sjávarstrauma hafa borið hann brott. Uldum segir skipið ekki hafa verið vel byggt, heldur fyrst og fremst hugsað um skjótfenginn gróða eigendanna. Það gæti hafa borgað sig upp á tveimur til þremur ferðum.