Rúmlega helmingi fleiri aftökur í ár

Fjöldi aftaka í Íran hefur meira en tvöfaldast milli ára, samkvæmt nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna Iran Human Rights, sem starfa í Noregi. Samtökin segjast hafa staðfest 1500 aftökur á árinu . Tölurnar ná fram í byrjun desember og því segja þau líklegt að fleiri hafi verið teknir af lífi eftir það. Í fyrra skráðu samtökin 975 aftökur. Þau segja þó aldrei hægt að gefa nákvæma tölu þar sem stjórnvöld gefa ekki upp opinberar tölur. Þetta sé þó í samræmi við þær tölur sem önnur samtök hafa skráð hjá sér. Dauðarefsing er lögleg í Íran og flestir sem eru dæmdir til dauða í landinu eru sakfelldir fyrir morð eða fíkniefnabrot. Aftökum hafði þegar fjölgað þegar Masha Amini, 22 ára kona, lést á sjúkrahúsi eftir að hafa verið handtekin af siðgæðislögreglu fyrir að hafa ekki borið höfuðslæðu með tilhlýðilegum hætti. Í kjölfarið braust út mótmælaalda sem ógnaði stjórnvöldum og stöðugleika í landinu. Stjórnvöld brugðust við því með því að fjölga aftökum. Þær voru 520 árið 2022 en voru 832 ári síðar. Aðgerðarsinnar segja að tíðni aftaka aukist þegar stjórnvöld finni að sér sé ógnað. Markmiðið sé að koma í veg fyrir andstöðu með því að ala á ótta meðal íbúa landsins.