Ætla að hreinsa olíumengun við íbúðarhús eftir tveggja ára bið

Heilbrigðiseftirlit Austurlands hyggst ráðast í olíuhreinsun á tveimur lóðum á Eskifirði, eftir ítrekaðar tilraunir til að fá fyrirtækið Mógli ehf. til að fjarlægja mengaðan jarðveg. Það telst nú fullreynt og verða lóðirnar hreinsaðar á kostnað fyrirtækisins á nýju ári. Það fer að nálgast tvö ár síðan íbúar á Eskifirði urðu varir við olíumengun á tveimur lóðum. Á öðru þeirra stendur hús í eigu fyrirtækisins Mógli ehf. og þar eru gamlir tankar frá tímum olíukyndingar. Í næsta húsi hefur fjölskylda búið við megna olíulykt síðan í mars 2024, og eftir að börn komu olíublaut heim eftir útileiki barst grunurinn fljótt að tönkunum á næstu lóð. Lára Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands segir þau strax hafa reynt að hindra frekari mengun. Þau hafi meðal annars látið tæma tankana og næst farið fram á að eigandi hússins myndi hreinsa olíumengaðan jarðveg. Í október rannsakaði Efla jarðveginn við húsvegg nágranna þeirra, sem reyndist 28 sinnum mengaðri en leyfilegt er í íbúabyggð. Í tæp tvö ár hefur verið pressað á forsvarsmenn Mógli að hreinsa olíuna. Lára segir biðina fyrir löngu orðna óviðunandi. Þvingunarúrræði gegn eiganda teljast fullreynd „Heilbrigðisnefndin er í raun búin að beita öllum þeim þvingunarúrræðum sem þau hafa án þess að þau hafi skilað árangri, það er að segja þau hafa beitt dagsektum og þau hafa veitt áminningu,“ segir Lára. Dagsektirnar telja nú tæpar fjórar milljónir en ekkert heyrist af hreinsun. Framundan er fundur með fulltrúum Fjarðabyggðar um hreinsun lóðanna, sem heilbrigðiseftirlitið vill gera strax á nýju ári á kostnað Mógli. Sú hreinsun felur í sér til dæmis jarðvegsskipti, en einnig hreinsun á húsgrunninum að Strandgötu 59.