Mikilvægt er að hafa öryggisatriði eins og hlífðargleraugu og hanska í huga þegar fólk ætlar að skjóta upp flugeldum. Slysum vegna flugelda hefur fækkað undanfarin ár, að sögn verkefnastjóra forvarna hjá Sjóvá, en mikilvægt er að minna reglulega á forvarnir til að fækka slysunum. Hætta á að fólk ofmeti færni sína Flugeldasala hófst í dag og leyfilegt er að skjóta þeim upp til og með 6. janúar. Hrefna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá, segir að fólk þurfi að hafa í huga að flugeldar eru ekki hættulausir. „Við erum sífellt að brýna fyrir fólki að vera með hlífðargleraugu eða svona flugeldagleraugu, og að hlífa höndum með því að hafa hanska og vettlinga, og passa sig að fólk sé ekki í skotlínunni og allt þetta, þessi öryggisatriði.“ Sífellt þurfi að minna fólk á þessa hluti. „Af því að síðan ofmetum við oft færni okkar, hvort sem það er í umferðinni eða með aðra hluti, og hugsum: það kemur ekkert fyrir mig. Það er nú þannig með slysin, það ætlar sér enginn að lenda í þeim þannig að það er eins gott að byrgja brunninn áður en maður fer af stað.“ Hrefna minnir einnig á að flugeldar geti verið gallaðir og því sé mikilvægt að verja sig eins og hægt er. „Maður veit ekkert alveg hundrað prósent hvað gerist þannig að það er bara mjög mikilvægt að verja sig eins og hægt er.“ Skemmtilegra að taka á móti nýju ári heill og glaður Samkvæmt upplýsingum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur útköllum slökkviliða vegna flugelda fjölgað mikið síðustu ár. Útköllunum fjölgaði um helming síðustu áramót, miðað við síðustu tvö ár á undan. Möguleg skýring eru útköll vegna elds utandyra, í gámum og ruslatunnum. „Þess vegna er mjög mikilvægt að minna á að slökkva vel í flugeldum áður en þeim er hent. Þannig að það er mjög mikilvægt að ganga úr skugga um að það sé engin glóð í þessu og að þetta sé örugglega bara rusl og ekkert annað í þessu.“ Ýmislegt þarf að hafa í huga yfir áramótin, bæði þessi öryggisatriði en líka dýrin. „Margir eiga orðið gæludýr og eru með hesta í húsum og svona. Dýrin eru oft hrædd við hávaðann og ljósblossana sem eru um áramót og það er mjög mikilvægt að hlúa vel að þeim.“ Hrefna segir einnig mikilvægt að hafa í huga að áfengi og flugeldar fari ekki vel saman. Fólk þurfi að vera með fulla athygli þegar það skýtur upp flugeldum. Slysum vegna flugelda hefur fækkað í gegnum árin, þökk sé forvörnum. „Þetta virðist vera að ná í gegn þannig að það er gott að vita að fólk er að hlusta og á bara hrós skilið fyrir það, að hugsa um öryggi sitt og annarra. En það þarf alltaf að minna á þetta reglulega til þess að forðast slysin og það er bara miklu skemmtilegra að taka á móti nýju ári heill og glaður.“