„Gott og árangursríkt“ símtal við Pútín

Bandaríkjaforseti segist hafa átt gott og árangursríkt símtal við forseta Rússlands í dag. Fundur hans og Úkraínuforseta á að hefjast innan skamms. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á samfélagsmiðli sínum Truth Social að hann hefði átt símtal með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í dag. Hann sagði fundinn hafa verið góðan og árangursríkan en gaf ekki nákvæmari skýringar. Stjórnvöld í Kreml staðfestu einnig að símtalið hefði átt sér stað en sögðu ekki meira um það. Trump fundar með Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta í Mar-a-Lago í Flórída og átti fundurinn að byrja klukkan sex að íslenskum tíma. Zelensky lenti í Flórída í dag eftir að hafa fundað með Mark Carney forsætisráðherra Kanada í Halifax í gær. Carney tilkynnti svo um 2,5 milljarða Kanadadollara styrk til Úkraínu, sem jafngildir um 230 milljörðum íslenskra króna. Bandaríkjaforseti tekur á móti Úkraínuforseta í setri sínu í Flórída á fundi sem hefst innan skamms. Trump segist hafa átt gott samtal við Rússlandsforseta fyrir fundinn. Zelensky átti fund með Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands í síma þegar hann kom til Bandaríkjanna í dag. Hann sagði þá hafa rætt undirbúning fyrir fundinn með Trump og samskipti við aðra evrópska bandamenn. Zelensky segist hafa upplýst Starmer um stöðuna á víglínunni og afleiðingar umfangsmikilla loftárása Rússa síðustu daga. Búist er við að Zelensky reyni að þrýsta á Trump að styðja tuttugu liða tillögu Úkraínumanna að friðaráætlun. Hún er mikið breytt frá fyrri drögum rússneskra og bandarískra embættismanna - og felur meðal annars í sér að víglínan verði fryst við núverandi staðsetningu og að Rússar skuldbindi sig til þess að ráðast ekki aftur á Úkraínu. Zelensky sagði fyrr í dag að framtíð Úkraínu ylti á að Vesturlönd tryggðu öryggi landsins. Zelensky og Trump hafa ekki hist síðan í október þegar sá síðarnefndi tilkynnti Zelensky að Úkraínuher fengi ekki langdrægar Tomahawk-eldflaugar.